Leitarvél

Leit í lögum og tilmælum: Sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér til hliðar.

Leiðbeinandi tilmæli

Málsnúmer 5/2011
Heiti Leiðbeinandi tilmæli um stöðu og verksvið regluvörslu fjármálafyrirtækja - [Ekki í gildi]
Dagsetning 12/12/2011
Starfsemi
  • Rekstrarfélög verðbréfasjóða
  • Verðbréfafyrirtæki
  • Verðbréfamiðlanir
  • Viðskiptabankar
  • Sparisjóðir
  • Lánafyrirtæki
Reifun

Fjármálaeftirlitið gefur út leiðbeinandi tilmæli um stöðu og verksvið regluvörslu fjármálafyrirtækja. Við gerð tilmælanna var stuðst við þær meginreglur og markmið sem sett hafa verið fram m.a. af International Organization of Securities Commissions (lOSCO) og Basel Committee on Banking Supervision. Einnig var skoðuð framkvæmd annarra ríkja og reynsla þeirra.

Fjármálafyrirtæki skulu rekin á heilbrigðan og eðlilegan hátt með hagsmuni viðskiptavina, hluthafa, stofnfjáreiganda og alls þjóðarbúsins að leiðarljósi, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Það er hagur fjármálamarkaðarins, fjármálafyrirtækja, hluthafa, stjórnarmanna og starfsmanna þeirra sem og allra fjárfesta, að starfsemi regluvörslu sé skilvirk enda stuðlar það að því að fyrirtæki starfi í samræmi við lög og reglur sem og stundi eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti.

Innan fjármálafyrirtækis með heimild til verðbréfaviðskipta skal vera starfrækt regluvörslueining sem hefur það hlutverk að fylgjast með og meta reglulega hæfi og skilvirkni tiltekinna ráðstafana fjármálafyrirtækis. Tilmæli þessi fjalla annars vegar um stöðu regluvörslu fjármálafyrirtækja og hins vegar um verksvið hennar. Um er að ræða leiðbeiningar til nánari skýringar á lágmarkskröfum laga og reglna varðandi stöðu og verksvið regluvörslu innan fjármálafyrirtækja sem og leiðbeiningar frá Fjármálaeftirlitinu um það með hvaða hætti það telur rétt að aðilar fari að þeim. Þó er ekki um tæmandi skýringu að ræða.

Um stöðu og verksvið regluvörslu fjármálafyrirtækja er fyrst og fremst fjallað í 6. gr. reglugerðar nr. 995/2007 um fjárfestavernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja sem sett er með stoð í lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti (vvl.). Fjármálaeftirlitið viII vekja sérstaka athygli á því að yfirstjórn fjármálafyrirtækis ber ábyrgð á að skyldur þess samkvæmt lögum og reglum séu uppfylltar, sbr. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar. Að auki skal yfirstjórn reglulega meta og endurskoða skilvirkni stefnu, fyrirkomulags og verklags, sem komið hefur verið á til að uppfylla skyldur samkvæmt lögum og reglum og gera viðeigandi ráðstafanir til að ráða bót á hvers konar annmörkum, sbr. 2. mgr. sömu greinar.

Efni tilmælanna hefur gildi fyrir fjármálafyrirtæki sem hafa heimild til verðbréfaviðskipta og markast það af starfsleyfi hvers fjármálafyrirtækis að hvaða leyti efni þessara tilmæla hefur gildi fyrir hvert þeirra.

Skjöl Leidbeinandi_tilm_2011_5.pdf

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica