Eftirlitsstarfsemi

Solvency II

Solvency II er regluverk á vátryggingamarkaði sem tók gildi í ESB 1. janúar 2016 og var innleitt hérlendis með lögum nr. 100/2016 er gildi tóku 1. október 2016. Smelltu hér til að fara beint á upplýsingasíðu Evrópska vátrygginga- og lífeyriseftirlitsins (EIOPA).

Í hnotskurn felst í Solvency II:

 • Auknar kröfur til gjaldþols og áhættustýringar vátryggingafélaga með það að markmiði að auka vernd vátryggingartaka 
 • Auknar kröfur draga úr líkum á tapi neytenda eða truflunum á markaði

Helstu þættir

Helstu þættir Solvency II eru eftirfarandi:

Viðeigandi fjárhagsgrundvöllur (Stoð I): mat á eignum og skuldum, viðurkenndir eiginfjárliðir, útreikningur vátryggingaskuldar og útreikningur á gjaldþolskröfum.

Reglur um mat á eignum og öðrum skuldum en vátryggingaskuld byggjast á hagrænum meginreglum (e. economic principles). Það felur að mestu í sér að matið sé í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS).

 • Útreikningur vátryggingaskuldar er samræmdur og byggir einnig á markaðssjónarmiðum.
 • Vátryggingafélög þurfa að mæla gjaldþolskröfu (e. Solvency Capital Requirement, SCR) sem er reiknuð út frá öllum mælanlegum áhættum félagsins.
 • Vátryggingafélög þurfa einnig að mæta lágmarksgjaldþoli (e. Minimum Capital Requirement, MCR) sem reiknað er með einfaldari aðferð.
 • Mæta skal SCR og MCR með viðurkenndum gjaldþolsliðum (e. eligible own funds) sem háðir eru ákveðnum mörkum.

Viðeigandi stjórnarhættir (Stoð II): virk áhættustýring og greining á áhættu, eigið áhættu- og gjaldþolsmat (e. Own Risk and Solvency Assessment, ORSA)

 • Stjórnkerfi sem tryggir heilbrigða og skynsama stjórnun á félaginu
 • Starfssvið (e. function) þar sem sinnt er hlutverki áhættustýringar, innri endurskoðunar, tryggingastærðfræði og regluvörslu.
 • ORSA er eigið mat félaganna á heildarfjármagnsþörf þar sem þau meta hvaða fjárhagsgrundvöllur er hæfilegur miðað við tiltekna áhættusamsetningu, áhættuþol og viðskiptaáætlun.

Eftirlitsferli (Stoð II): verklag eftirlitsstjórnvalda í eftirliti með vátryggingafélögum, greining á veikleikum og aukinni áhættu.

 • Felur í sér samræmingu eftirlits og leiðbeiningar til eftirlitsstjórnvalda

Opinber upplýsingagjöf og upplýsingagjöf til eftirlitsstjórnvalda (Stoð III)

 • Skýrsla um gjaldþol og fjárhagslega stöðu (e. Solvency and Financial Condition Report, SFCR) er opinber skýrsla sem vátryggingafélögum ber að birta árlega. Í skýrslunni skulu vátryggingafélög m.a. fjalla ítarlega um stjórnkerfi og áhættustýringu félagsins.
 • Regluleg eftirlitsskýrsla (e. Regular Supervisory Report, RSR) er ítarleg skýrsla sem vátryggingafélög senda til Fjármálaeftirlitsins.
 • Gagnasöfnun á EES-svæðinu fyrir tölulegar og aðrar skriflegar upplýsingar um rekstur og fjárhagslega stöðu félaganna er samræmd og stöðluð. Sumum upplýsingum skal skilað árlega en öðrum ársfjórðungslega.

Innleiðingarferli

Solvency II tilskipunin  var samþykkt af Evrópuþinginu í nóvember 2009 og breytt með tilskipun 2014/51/ESB (svokölluð Omnibus II tilskipun)

Framseld reglugerð (Delegated Regulation) var samþykkt af Framkvæmdastjórn ESB 10. október 2014  og birt í stjórnartíðindum ESB 17. janúar 2015. Reglugerðin kveður nánar á um og útskýrir frekar ýmis atriði varðandi Solvency II

Solvency II gildir um öll vátryggingafélög með starfsleyfi hér á landi, að undanskildum eftirtöldum félögum: Viðlagatryggingu Íslands, Íslenskri endurtryggingu hf. og Tryggingu hf.

Til viðbótar áðurnefndum tilskipunum og reglugerðum hefur EIOPA gefið út reglugerðartæknistaðla (Regulatory Technical Standards) og innleiðingartæknistaðla (Implementing Technical Standards), auk staðla er fjalla um afgreiðslu eftirlitsstjórnvalda á umsóknum vátryggingafélaga á beitingu heimilda í Solvency II. Tæknistaðlar þessir öðluðust gildi hérlendis með lögum nr. 100/2016. 

Jafnframt gefur EIOPA út töluverðan fjölda viðmiðunarreglna (e. guidelines) sem beint er að eftirlitsstjórnvöldum og ætlað er að auðvelda samræmingu aðferða í beitingu Solvency II. Fyrsta sett viðmiðunarreglna EIOPA var gefið út í febrúar 2015 og innihélt 19 viðmiðunarreglur. Í kjölfarið sendi Fjármálaeftirlitið dreifibréf til vátryggingafélaga sem falla munu undir Solvency II þar sem því var beint til félaganna að nýta sér þessar reglur í undirbúningi sínum fyrir Solvency II. Búist er við að innleiðingu Solvency II verði að fullu lokið hérlendis árið 2017 með afleiddri reglusetningu og útgáfu leiðbeinandi tilmæla Fjármálaeftirlitsins.

Kynningar

Fjármálaeftirlitið hefur haldið fjölda kynningarfunda fyrir eftirlitsskylda aðila í aðdraganda innleiðingar og eftir gildistöku laga nr. 100/2016. Glærur frá fundunum má nálgast hér fyrir neðan:

Kynning nr. 2 á viðmiðunarreglum EIOPA sem fylgja Solvency II - þann 2.11. 2017
Kynning á viðmiðunarreglum EIOPA sem fylgja Solvency II - þann 5.10. 2017
Gagnaskil (3 af 3) - þann 9.2. 2017
Regluleg gagnaskil (2 af 3) - þann 26.1. 2017
Regluleg gagnaskil (1 af 3) - þann 12.1. 2017
Kröfur til vátryggingafélaga um opinbera birtingu upplýsinga – 3.11.2016
Hlutverk innri endurskoðenda, gæði gagna og gjaldþolsliðir – 11.2.2016
Innleiðing og upphafsgagnaskil – 15.12.2015

Spurt og svarað
Solvency II gagnaskilatæknistaðlarnir sem innleiddir hafa verið hérlendis eru upprunnir hjá EIOPA. Þeim er ætlað að samræma gagnasöfnun á evrópska efnahagssvæðinu og er beiting þeirra því háð túlkun EIOPA. Eftirlitsskyldum aðilum er bent á að senda inn fyrirspurnir vegna gagnaskilanna tímanlega þar sem Fjármálaeftirlitið getur þurft að leita til EIOPA eftirl áliti eða túlkun, en einnig má senda fyrirspurnir beint til EIOPA.

EIOPA heldur úti vefsíðu með spurningum sem stofnuninni hafa borist og svörum við þeim sem gefin hafa verið út. Upplýsingarnar má nálgast hér en Fjármálaeftlriltið hefur einnig birt svör við spurningum á heimasíðu sinni. 

Allar fyrirspurnir varðandi Solvency II sendist á solvencyII@fme.is

Til bakaLanguage


Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica