Virkir eignarhlutir og meðferð þeirra

Virkur eignarhlutur er bein eða óbein hlutdeild í fjármálafyrirtæki, rafeyrisfyrirtæki, greiðslustofnun, vátryggingafélagi eða rekstraraðila sérhæfðra sjóða sem nemur 10% eða meira af hlutafé, stofnfé eða atkvæðisrétti, eða gerir aðila kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi félags.

Tilgangur lagaákvæða um mat Fjármálaeftirlitsins á hæfi fyrirhugaðs eiganda virks eignarhlutar er einkum sá að draga úr hættunni á að stórir hluthafar í fjármálafyrirtækjum hafi skaðleg áhrif á heilbrigðan og traustan rekstur fyrirtækjanna og virkni markaðarins.

Fjármálaeftirlitið þarf að samþykkja virka eignarhluti fyrirfram, hvort sem um er að ræða nýjan virkan eignarhlut eða þegar virkur eigandi eykur við eignarhald sitt þannig að hann fari yfir ákveðin mörk sem tilgreind eru í lögum. Fjármálaeftirlitið metur hæfi aðila sem sækist eftir því að fara með virkan eignarhlut út frá ýmsum þáttum, t.d. orðspori, reynslu og fjárhagslegu heilbrigði viðkomandi. Fjármálaeftirlitið fer jafnframt með viðvarandi eftirlit með eigendum virkra eignarhluta til þess að tryggja að þeir uppfylli á hverjum tíma hæfisskilyrði til að fara með virkan eignarhlut.

 

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica