Tilskipun 2014/59/ESB um endurreisn og skilameðferð fjármálafyrirtækja (e. Bank Recovery and Resolution Directive)

     I.      BRRD

 

Tilskipun 2014/59/ESB um endurbætur og skilameðferð fjármálafyrirtækja (e. Bank Recovery and Resolution Directive), oftast nefnd BRRD, tók gildi innan Evrópusambandsins þann 1. janúar 2015.

Tilskipunin fjallar í megindráttum um áætlun um endurbætur (e. recovery) sem fjármálafyrirtæki, hér lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki, þurfa að hafa til staðar og virkja ef álag skapast í starfsemi þeirra, tímanleg inngrip (e. early intervention) eftirlitsstofnana í starfsemi fjármálafyrirtækja og skilameðferð (e. resolution) ef nauðsynlegt er talið að eftirlitsstofnanir taki yfir eða grípi inn í starfsemi fjármálafyrirtækja.

Markmið tilskipunarinnar er að vernda fjármálastöðugleika, hvort sem er í einstöku aðildarríki eða á innri fjármálamarkaði Evrópusambandsins, draga úr áhættu í rekstri fjármálafyrirtækja, vernda innstæðueigendur, fé almennings og mikilvæga starfsemi fjármálafyrirtækja.

Að gefnu tilefni er vakin athygli á því að tilskipunin fjallar ekki um slitameðferð fjármálafyrirtækja. Tilskipun um slitameðferð (e. Winding-up Directive) nr. 2001/24/EB hefur verið innleidd að hluta í XII. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Með BRRD tilskipuninni eru settar fram kröfur á fjármálafyrirtæki í þeim tilgangi að þau verði betur í stakk búin til að bregðast fyrr við áföllum. Einnig er þar að finna aukin úrræði eftirlitsaðila og úrræði til að beina fjármálafyrirtækjum, sem geta haft áhrif á fjármálastöðugleika við gjaldþrot, í fyrirfram ákveðinn farveg þegar hættuástand skapast.

 

 

Tilskipunin fjallar í meginatriðum um þrjú þrep:

 1. Fyrsta þrepið er fyrirbyggjandi, þ.e. endurbætur.  Í því felst að  fjármálafyrirtæki þurfa að vera með tilbúnar endurbótaáætlanir (e. recovery plans) um það hvernig bregðast skuli við mögulegum áföllum eða álagi. Endurbótaáætlun er á ábyrgð stjórnar fjármálafyrirtækis en hún er yfirfarin af Fjármálaeftirlitinu sem getur farið fram á úrbætur telji það tilefni til.
 2. Annað þrepið fjallar um tímanleg inngrip. Í þessu þrepi hefur orðið áfall eða skapast hættuástand og fjármálafyrirtæki hefur þegar virkjað eða verið gert skylt að virkja endurbótaáætlun sína að hluta eða öllu leyti. Fjármálaeftirlitið getur í þessu þrepi gripið til ýmissa aðgerða sem ætlað er að koma í veg fyrir álag á fjármálakerfi. Þetta þrep er á ábyrgð Fjármálaeftirlits með aðkomu eftirlitsyfirvalda með skilameðferð (skilavalds).
 3. Þriðja þrepið fjallar um skilameðferð fjármálafyrirtækis og er á ábyrgð eftirlitsyfirvalda með skilameðferð (skilavalds). Komi í ljós að aðgerðir til endurbóta og/eða aðgerðir Fjármálaeftirlitsins við tímanleg inngrip reynist ófullnægjandi eða ótæk, hætta er á smitáhrifum til annarra fjármálafyrirtækja eða starfsemi fjármálafyrirtækisins er talin það mikilvæg að mögulegt gjaldþrot þess gæti haft áhrif á fjármálastöðugleika, fer slíkt fyrirtæki í skilameðferð hjá skilavaldi, enda uppfylli fjármálafyrirtækið skilyrði fyrir skilameðferð. Í skilameðferð fylgir skilavaldið skilaáætlun (e. resolution plan) sem þegar liggur fyrir.

 

     II.      Skilavald

 

BRRD tilskipunin gerir ráð fyrir að stofnað verði sjálfstætt eftirlitsstjórnvald, skilavald (e. Resolution Authority).

      a.   Helstu verkefni skilavalds:

 

 • Skilaáætlun. Skilavald semur skilaáætlun (e. resolution plan) fyrir hvert og eitt fjármálafyrirtæki sem talið er geta haft áhrif á fjármálastöðugleika við mögulegt gjaldþrot. Þetta er gert þegar rekstur og rekstrarskilyrði eru í eðlilegu horfi. Skilaáætlun fjármálafyrirtækisins verður einungis aðgengileg skilavaldinu sjálfu en það getur óskað eftir upplýsingum frá fjármálafyrirtækinu og Fjármálaeftirlitinu við gerð skilaáætlunar. Í skilaáætlun viðkomandi fjármálafyrirtækis skal tilgreina þær aðgerðir sem skilavaldið getur gripið til miðað við starfsemi og þjónustu fjármálafyrirtækisins ef sú staða kemur upp að skilyrði skilameðferðar gildi um félagið.
 • Lágmarkshlutfall eiginfjárgrunns og hæfra skuldbindinga. Skilavaldið ákvarðar fyrir einstök fjármálafyrirtæki lágmarkshlutfall eiginfjárgrunns og hæfra skuldbindinga (e. Minimum requirement for own funds and eligible liabilities - MREL). MREL skal reiknað sem hlutfall samtölu eiginfjárgrunns og hæfra skuldbindinga af samtölu heildarskuldbindinga og eiginfjárgrunns. Með hæfum skuldbindingum (e. eligible liabilities) er átt við fjármagnsgerninga (e. capital instruments) fjármálafyrirtækis, aðra en þá sem falla undir almennt eigið fé þáttar 1, viðbótar eigið fé þáttar 1 og þáttar 2, og sem eru ekki undanskildir eftirgjafarúrræði (e. bail-in tool) skilavalds.
 • Skilameðferð fjármálafyrirtækja. Skilameðferð fjármálafyrirtækja getur verið mismunandi eftir eðli þjónustu og starfsemi hvers fjármálafyrirtækis. Sjá nánar um úrræði skilavalds hér að neðan.

      b.   Skilyrði skilameðferðar:

Eftirfarandi skilyrði þurfa öll að vera fyrir hendi til þess að skilavaldi sé heimilt að grípa til aðgerða og beita þeim úrræðum sem skilameðferð tilgreinir:

 • Fjármálaeftirlitið, í samráði við skilavaldið, eða skilavaldið í samráði við Fjármálaeftirlitið, hefur komist að þeirri niðurstöðu að fjármálafyrirtækið geti ekki staðið við skuldbindingar sínar eða að verulegar líkur séu á að það geti ekki staðið við skuldbindingar sínar.
 • Litlar líkur eru á því, að mati skilavaldsins, að aðkoma einkaaðila að endurreisn fyrirtækisins, snemmbær inngrip Fjármálaeftirlitsins, niðurfærsla skulda eða umbreyting skulda í eigið fé komi í veg fyrir mögulegt gjaldþrot fyrirtækisins og
 • skilameðferð er nauðsynleg vegna almannahagsmuna.

 

      c.   Úrræði skilavalds eru m.a.: 

 

 • Sala rekstrar (e. sale of business tool). Samkvæmt þessu úrræði hefur skilavaldið heimild til að selja rekstrarhluta fyrirtækis, í heild eða hluta, í opnu söluferli.
 • Stofnun brúarfyrirtækis (e. bridge institution tool). Samkvæmt þessu úrræði hefur skilavaldið heimild til að stofna nýtt fyrirtæki sem tekur við kerfislega mikilvægri starfsemi fjármálafyrirtækis sem er í skilameðferð.
 • Uppskipting eigna (e. asset separation tool). Samkvæmt þessu úrræði hefur skilavaldið heimild til að framselja eignir, réttindi eða skuldbindingar fyrirtækis í skilameðferð eða brúarfyrirtækis til eins eða fleiri eignaumsýslufyrirtækja. Eignaumsýslufyrirtækið er sjálfstæður lögaðili og er hlutverk þess að stýra þeim verðmætum og skuldbindingum sem framseld hafa verið til þess í þeim tilgangi að hámarka virði þeirra.
 • Eftirgjöf (e. bail–in tool). Samkvæmt þessu úrræði hefur skilavaldið heimild til að umbreyta kröfum og öðrum skuldbindingum á hendur fyrirtæki í eigið fé að hluta til eða að öllu leyti og/eða færa niður hlutafé að hluta til eða öllu leyti. 

     III.      Skilasjóður

Tilskipunin gerir ráð fyrir að stofnaður sé sérstakur skilasjóður, sambærilegur við Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta, sem er ætlað að standa straum af kostnaði vegna skilameðferðar fjármálafyrirtækja og starfsemi skilavaldsins. Gert er ráð fyrir að skilasjóður verði fjármagnaður af fjármálafyrirtækjum.

 

     IV.      Tæknistaðlar og viðmiðunarreglur

 

Evrópska bankaeftirlitsstofnunin (e. European Banking Authority), EBA, er samkvæmt tilskipuninni ætlað að gefa út bindandi tæknistaðla (e. Binding Technical Standards) sem síðar eru teknir upp í afleiddar reglugerðir Evrópusambandsins. EBA hefur einnig gefið út viðmiðunarreglur (e. Guidelines) og greinargerðir um ýmis málefni er tengjast endurbótaáætlunum, tímanlegum inngripum og skilameðferð. Þessum gerðum EBA er ætlað að tryggja árangursríka og samræmda framkvæmd varðandi hvernig tekið er á yfirvofandi hættu á fjármálamarkaði innan Evrópska efnahagssvæðisins. Á heimasíðu EBA má finna yfirlit yfir allar þessar gerðir. Sjá meðfylgjandi krækju: http://www.eba.europa.eu/regulation-and-policy/recovery-and-resolution

     V.       Áhrif innleiðingar á eftirlit og fjármálafyrirtæki

 

Innleiðing BRRD tilskipunarinnar mun hafa nokkur áhrif á fjármálaeftirlit og fjármálafyrirtæki. Nefnd á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytis tók þá ákvörðun að innleiða hana í tveimur hlutum. Annars vegar var hluti er snýr að Fjármálaeftirlitinu og innleiddur í lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með breytingalögum nr. 54/2018, sem og með reglugerð nr. 50/2019 um endurbótaáætlanir lánastofnana og verðbréfafyrirtækja og samstæður þeirra. Hins vegar er fyrirhugað að innleiða þann hluta tilskipunarinnar er snýr að skilavaldi og úrræðum þess í sérlöggjöf. Fyrirhugað er að leggja síðara frumvarpið fram á Alþingi haustið 2019.

Mikilvægt er að lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki kynni sér efni tilskipunarinnar og hefji undirbúning þeirra ráðstafana sem innleiðing tilskipunarinnar mun hafa í för með sér. Má þar sérstaklega nefna undirbúning að gerð endurbótaáætlana sem öllum lánastofnunum og verðbréfafyrirtækjum er ætlað að hafa til reiðu. Í því sambandi þurfa aðilar m.a. að kynna sér eftirfarandi:

Til upplýsingar má finna hér drög að tæknistöðlum og viðmiðunarreglum um einfaldar endurbótaáætlanir. Tæknistaðlarnir eru enn í vinnslu hjá EBA og verða að þeirri vinnu lokinni teknir upp í afleidda reglugerð Evrópusambandsins. Hafi rekstrarerfiðleikar fjármálafyrirtækis ekki í för með sér verulega neikvæð áhrif á fjármálakerfið, önnur fjármálafyrirtæki eða hagkerfið er gert ráð fyrir að slíkum fyrirtækjum sé heimilt að skila einfaldri endurbótaáætlun. Þetta mat er í höndum Fjármálaeftirlitsins.

Að auki er mikilvægt fyrir aðila að kynna sér fyrirhuguð ákvæði um lágmarkskröfur eiginfjárgrunns og hæfra skuldbindinga ( e. Minimum requirement for own funds and eligible liabilities - MREL).

 

 

Frekari upplýsingar er varða fjárstuðning innan samstæðu má finna hér:

 

 

Frekari upplýsingar um skrá yfir fjárhagslega samninga má finna hér:

 

 

Fjármálaeftirlitið veitir frekari upplýsingar sé þess óskað.

Hægt er að senda fyrirspurnir í tengslum við ofangreint á netfangið: skilavald@sedlabanki.is

Þessi texti var síðast uppfærður í apríl 2019

 

Til baka

Language


Þessi síða notar vefkökur.
Lesa meira

X
Þetta vefsvæði byggir á Eplica