Fréttir


Forsendur iðgjalda og framkvæmd nýtrygginga í lögmæltum ökutækjatryggingum vegna bifhjóla

13.1.2011

Nýverið athugaði Fjármálaeftirlitið (FME) forsendur iðgjaldagrundvallar og framkvæmd nýtrygginga í lögmæltum ökutækjatryggingum vegna bifhjóla hjá öllum skaðatryggingafélögum á íslenskum markaði.

Fyrir liggur að grunniðgjöld vátryggingafélaga í nefndum flokki grundvallast í meginatriðum á tvennu:

Annars vegar þeirri auknu áhættu sem fylgir notkun bifhjóla samanborið t.d. við notkun bifreiða. Þessi aukna áhætta felur í sér að tjónakostnaður verður umtalsvert hærri en í bifreiðatjónum, t.d. vegna meiri slysahættu ökumanns, sem aftur leiðir til hærri iðgjalda.

Hins vegar grundvallast iðgjöldin á þeirri staðreynd að af náttúrulegum orsökum eru bifhjól að meginstefnu til aðeins notuð hluta úr ári. Sú staðreynd gefur tilefni til þess að vátryggingartaki nýti rétt sinn skv. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 424/2008 um lögmæltar ökutækjatryggingar til þess að krefja vátryggingafélag hlutfallslegrar endurgreiðslu iðgjalds fyrir þann hluta úr ári sem skráningarmerki bifhjólsins eru í vörslu Umferðarstofu eða þess sem hefur umboð hennar.

Síðari forsendan vegur þungt í verðlagningu vátryggingarinnar en áhrif hennar verða best skýrð með dæmi:

Bifhjólaeigandi sem aðeins notar hjól sitt fjóra mánuði á ári fær sendan greiðsluseðil vegna iðgjalds að fjárhæð kr. 600.000. Samkvæmt reglugerð um lögmæltar ökutækjatryggingar getur hann krafist hlutfallslegrar endurgreiðslu þessarar fjárhæðar fyrir þá átta mánuði ársins sem skráningarmerki hjólsins eru í vörslu Umferðarstofu. Hann fær þá kr. 400.000 endurgreiddar frá vátryggingafélaginu og vátryggingafélagið heldur kr. 200.000 í iðgjöld sem standa eiga undir tjónakostnaði og rekstrarkostnaði.

Þar sem hér er um háar fjárhæðir að ræða hafa vátryggingafélögin í auknum mæli boðið vátryggingartökum, eins og þeim sem um getur í dæminu hér að ofan, að greiða svonefnt heilsársiðgjald án endurgreiðsluréttar. Í því felst að vátryggingartaki greiðir aðeins kr. 200.000 en samþykkir að fara ekki fram á hlutfallslega endurgreiðslu fyrir þann hluta ársins sem skráningarmerki hjólsins eru í vörslu Umferðarstofu. Á reikningi sem vátryggingartaki fær sendan eru kr. 400.000 þá skráðar sem afsláttur.

Flestir vátryggingartakar kjósa heilsársiðgjald án endurgreiðsluréttar þegar slíkt er í boði. Þegar flestir þeirra sem eru í sömu stöðu og bifhjólaeigandinn í dæminu hér að ofan greiða aðeins kr. 200.000 í iðgjöld rís gjarnan spurningin hvers vegna sú fjárhæð er ekki grunniðgjaldið.

Ástæðan er sú að vátryggingafélag getur ekki einhliða áskilið að vátryggingartaki semji um hið lægra iðgjald og afsali sér þannig rétti til hlutfallslegrar endurgreiðslu fyrir þann hluta ársins sem skráningarmerki hjólsins eru í vörslu Umferðarstofu. Af því leiðir að ef vátryggingafélag myndi senda greiðsluseðil fyrir kr. 200.000 myndi vátryggingartaki engu að síður geta krafist hlutfallslegrar endurgreiðslu. Slík krafa um endurgreiðslu fæli í sér að félagið endurgreiddi kr. 133.400 en eftir stæðu aðeins kr. 66.600 sem ekki myndu duga fyrir tjónakostnaði og eðlilegum rekstrarkostnaði.

Það áréttast að þær fjárhæðir sem hér voru notaðar eru aðeins nefndar í dæmaskyni en styðjast ekki við tölur frá tilteknu félagi. Hins vegar ætti framangreint dæmi að sýna þær forsendur sem liggja að baki iðgjöldum í lögmæltum ökutækjatryggingum vegna bifhjóla.

Við fyrrnefnda athugun veitti Fjármálaeftirlitið því athygli að í vissum tilfellum eru vátryggingartökum, þegar eftir að vátryggingafélag móttekur vátryggingabeiðni, sendir greiðsluseðlar fyrir fullu iðgjaldi vátryggingarinnar án þess að gerð sé grein fyrir möguleikanum á endurgreiðslu hluta hennar eða samningi um heildariðgjald án endurgreiðslu þegar slíkt er í boði. Hér er einkum um að ræða þau tilvik þegar vátryggingabeiðni berst frá öðrum en vátryggjanda sjálfum, t.d. fjármögnunarfyrirtæki eða þegar vátryggingartaki er ekki í öðrum viðskiptum við vátryggingafélagið.

Í nefndum tilfellum er vátryggingartaka ókunnugt um forsendur að baki iðgjaldinu. Þar af leiðandi getur hann hvorki metið tilboð félagsins né grundvöll viðskipta sinna við það að fullu.

Af þessum ástæðum hefur FME, á grundvelli heimilda til eftirlits með því að vátryggingastarfsemi samræmist góðum viðskiptaháttum og venjum á vátryggingamarkaði, farið fram á að vátryggingafélög endurskoði verkferla sína varðandi töku lögboðinnar ökutækjatryggingar vegna bifhjóla með tilliti til þeirra ábendinga sem eftirlitið hefur komið á framfæri.
Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica