Sértryggð skuldabréf

Um útgáfu sértryggðra skuldabréfa gilda lög nr. 11/2008, um sértryggð skuldabréf, sbr. 7. tölul. 1. mgr. 1. gr. c laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og reglur nr. 190/2023, um sértryggð skuldabréf. Með lögum nr. 7/2023, um breytingu á lögum um sértryggð skuldabréf og lögum um fjármálafyrirtæki, sem tóku gildi 1. mars 2023, voru innleidd í íslenskan rétt tilskipun (ESB) 2019/2162, um útgáfu sértryggðra skuldabréfa og opinbert eftirlit með sértryggðum skuldabréfum, og reglugerð (ESB) 2019/2160, um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 575/2013 (CRR) að því er varðar áhættuskuldbindingar í formi sértryggðra skuldabréfa. Gerðunum er ætlað að skapa sameiginlegan og einsleitan markað með sértryggð skuldabréf innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES).

Lánastofnanir geta sótt um leyfi til Seðlabanka Íslands til útgáfu sértryggðra skuldabréfa, sbr. I. kafla laga um sértryggð skuldabréf. Um útgáfuna, tryggingasafn hennar, upplýsingagjöf til fjárfesta, skila- og ógjaldfærnimeðferð útgefanda, eftirlit sjálfstæðs skoðunarmanns o.fl. fer samkvæmt II.-VIII. kafla laganna. Seðlabankinn annast eftirlit með framkvæmd laganna, beitingu viðurlaga og samskipti við viðeigandi stofnanir á EES, þ.m.t. Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina (EBA), sbr. IX. og X. kafla þeirra.

Kerfislega mikilvægu fjármálafyrirtækin þrjú, Arion banki hf., Íslandsbanki hf. og Landsbankinn hf., hafa öll fengið leyfi til útgáfu sértryggðra skuldabréfa.

Samkvæmt 3. tölul. 24. gr. b laga um sértryggð skuldabréf ber Seðlabankanum að birta skrá yfir sértryggð skuldabréf sem má markaðssetja sem evrópsk sértryggð skuldabréf (e. European Covered Bond) eða evrópsk sértryggð skuldabréf (úrvals) (e. European Covered Bond (Premium)), sbr. 4. gr. a sömu laga. Megintilgangur upplýsingagjafarinnar er að auka gagnsæi á markaði sem nýtist bæði útgefendum og fjárfestum. Skráin er uppfærð reglulega og a.m.k. ársfjórðungslega.

Skrá yfir sértryggð skuldabréf

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica