Fréttir


Vegna umræðu um skilanefndir

15.12.2008

Með lögum nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., var Fjármálaeftirlitinu m.a. veitt heimild til þess að taka yfir vald hluthafafundar og víkja frá stjórn fjármálafyrirtækis. Fjármálaeftirlitinu er jafnframt heimilt, samhliða því sem ákvörðun er tekin um að víkja stjórn fjármálafyrirtækis frá, að skipa því fimm manna skilanefnd er fer með allar heimildir stjórnar samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga nr. 2/1995.

Hlutverk skilanefnda er að starfa í samræmi við ákvæði hlutafélagalaga og fara með öll málefni fjármálafyrirtækisins, þar á meðal að hafa umsjón með allri meðferð eigna þess, svo og að annast annan rekstur þess.

Brýnasta  verkefni  íslenskra stjórnvalda eftir bankahrunið var að endurreisa starfhæft bankakerfi. Það var gert m.a. á þann hátt að Fjármálaeftirlitið beitti ákvæðum laga nr. 125/2008 einungis nokkrum klukkustundum eftir að þau voru samþykkt frá Alþingi og skipuð var skilanefnd fyrir Landsbanka Íslands hf. eftir að stjórn og bankastjórar  bankans höfðu lýst því yfir við Fjármálaeftirlitið að þær aðstæður sem upp væru komnar hjá bankanum væru svo alvarlegar að ljóst væri að hann félli undir ákvæði 5. gr. laga nr. 125/2008. Í kjölfarið var sömu aðferð beitt gagnvart Glitni banka hf. og Kaupþingi banka hf. eftir að stjórnir og bankastjórar þeirra höfðu gefið sams konar yfirlýsingar um stöðu bankanna tveggja sem ættu ekki annars úrkosta en falla undir ákvæði 5. gr. laga nr. 125/2008.

Með hliðsjón af ofangreindu og þeirri þjóðarnauðsyn að hafa starfhæft bankakerfi var þegar í stað gripið til þeirrar ráðstöfunar að skipa bönkunum skilanefndir. Samhliða þessu þurfti að stofna þrjá nýja viðskiptabanka með heimild í áðurgreindum lögum.

Vegna þeirra sérstöku aðstæðna og til að tryggja sem besta yfirsýn á sem skemmstum tíma um hag bankanna þótti rétt að í nefndunum væru starfsmenn sem þekktu vel til starfsemi og eignasafns þeirra, en meginverkefni nefndanna er að tryggja umsjón með meðferð eigna og hámarka verðmæti þeirra. Meirihluti skilanefndarmanna er þó jafnan skipaður utanaðkomandi aðilum með reynslu af endurskoðun og lögmennsku.

Við skipun manna  í skilanefndir var kannað, og nefndarmenn sérstaklega spurðir, hvort þeir uppfylltu kröfur um almennt hæfi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica