Fréttir


Fundur um Pillar III ákvæði Solvency II og skýrsluskil vátryggingafélaga

20.2.2008

Þann 14. febrúar sl. hélt Fjármálaeftirlitið (FME) annan kynningarfund af fjórum um drögin að Solvency II tilskipuninni og helstu áherslur FME sem tengja má við fyrirhugaða löggjöf. Um 15 fulltrúar vátryggingafélaga, móðurfélaga þeirra, fjármálafyrirtækja og endurskoðunarfyrirtækja sóttu fundinn.

 

Tilgangur þessa fundar var tvíþættur. Annars vegar var um að ræða aðra kynningu af fjórum þar sem teknir voru fyrir einstakir hlutar í tilskipunardrögunum. Að þessu sinni var fjallað um svokallaðan Pillar III hluta, eða upplýsingagjöf til eftirlitsstjórnvalda og opinbera upplýsingagjöf. Fjallað var um hvert innihald upplýsinga eigi að vera, tegund upplýsinga, hvaða lögmálum upplýsingarnar skulu fylgja og hvaða heimildir þarf að veita eftirlitsstjórnvöldum svo eitthvað sé nefnt. Auk þess var fjallað um opinbera upplýsingagjöf um gjaldþol og fjárhagslega stöðu vátryggingafélaga, þar sem tilgreint var hvaða meginreglur séu viðhafðar við fyrrnefnda upplýsingagjöf, innihald upplýsinga, nauðsynlegar uppfærslur og viðbótarupplýsingar sem gera þarf opinberar og fleira. Auk þess má geta að verið er að útfæra nánar fyrrgreind atriði varðandi opinbera upplýsingagjöf í vinnuhópum á vegum CEIOPS sem starfsmenn FME taka þátt í.

Á seinni hluta fundarins var fjallað um skýrsluskil vátryggingafélaganna fyrir árið 2007 og fyrirkomulag skýrsluskila í framtíðinni. Vakin var athygli á að í fæstum tilvikum munu kröfur Pillar III fela í sér aukin skýrsluskil fyrir vátryggingafélög en hugsanlega munu kröfur um opinbera upplýsingagjöf eitthvað aukast. Gefið var yfirlit yfir í hvaða tilgangi FME notar gögn sem skilað er inn.

Fjallað var um leiðbeiningar FME um skýrsluskilin og vakin athygli á nokkrum ábendingum og nýjungum vegna einstakra skýrslna. Þrjár skýrslur voru teknar sérstaklega fyrir, skýrsla tryggingastærðfræðings líftryggingafélags, sundurliðun vátryggingagreina og eignir til jöfnunar vátryggingaskuldar. Á fundinum komu fram nokkrar athugasemdir við eyðublaðsform síðastnefndu skýrslunnar og hefur ný útgáfa því verið sett á skýrsluskilavefinn.

Að lokum var fjallað um hlutverk umsjónarmanna vátryggingafélaga hjá FME, væntanlegt úrvinnslukerfi og möguleg áhrif Solvency II á skýrsluskilin. Solvency II mun m.a. hafa áhrif á þróun upplýsingatækni hjá FME og öðrum eftirlitum á EES svo að tryggt sé að allar upplýsingar sem þarf til að meta rekstur, fjárhag, áhættu og gjaldþol vátryggingafélaga berist með sem hagkvæmustum hætti.

FME leggur mikla áherslu á að allar upplýsingar sem vátryggingafélögum ber að skila, séu á viðeigandi formi, séu yfirfarnar og réttar og sé skilað innan þess skilafrests sem FME setur.

Á næsta kynningarfundi þann 28. febrúar nk. verður fjallað um málefni vátryggingasamstæðna, bæði núverandi lagaumhverfi og framtíðar lagaumhverfi Solvency II og þátttöku þeirra í QIS 4.

Hér að neðan má nálgast glærur frá fundinum

Pillar III ákvæði Solvency II-Upplýsingagjöf til eftirlitsstjórnvalda

Pillar III ákvæði Solvency II-Opinber upplýsingagjöf

Skýrsluskil vátryggingafélaga

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica