Fréttir


Við höldum ótrauð okkar striki

- frá Unni Gunnarsdóttur, forstjóra Fjármálaeftirlitsins

5.3.2012

  • Unnur-Gunnarsdottir,-starfandi-Forstjori-Fjarmalaeftirlitsins
    Unnur-Gunnarsdottir,-starfandi-Forstjori-Fjarmalaeftirlitsins

Atburðarásin í Fjármálaeftirlitinu að undanförnu, með tilheyrandi umræðu, er mér tilefni eftirfarandi hugleiðingar, ekki síst ýmsar fullyrðingar á opinberum vettvangi um gang mála og afleiðingar þeirra sem eru misvísandi eða í versta falli hrein fjarstæða.

Ég ákvað að verða við þeirri ósk stjórnar Fjármálaeftirlitsins að taka við starfi forstjóra tímabundið og þakka það traust sem stjórn og samstarfsfólkið sýnir mér. Ég lýsi ánægju með það veganesti sem efnahags- og viðskiptaráðuneytið lét okkur í té með yfirlýsingu sinni 1. mars 2012 þar sem tekið er fram að ráðuneytið:

„ ... hefur staðið og mun standa vörð um stjórnskipulegt og faglegt sjálfstæði FME.  Ráðuneytið leggur höfuðáherslu á að engin röskun verði á þeirri mikilvægu starfsemi sem FME hefur með höndum og snýr að því að standa vörð um traust og heilbrigði fjármálamarkaðarins.“

Stöðugt aðhald og rýni

Mikið uppbyggingarstarf hefur verið unnið innan Fjármálaeftirlitsins undanfarnar vikur og mánuði. Við fluttum aðsetur okkar af Suðurlandsbraut í glæsileg húsakynni við Höfðatún í september 2011. Í beinu framhaldi var ráðist í umfangsmikla vinnu við breytingu á stjórnskipulagi FME. Nýtt skipurit undir stjórn nýrra framkvæmdastjóra tók gildi 15. janúar 2012 og nú er unnið að því að fara yfir vinnuferla í stóru og smáu til að tryggja festu, öryggi og fagmennsku í starfseminni. Við þá vinnu leggja allir starfsmenn Fjármálaeftirlitsins sitt af mörkum.

Starfsemi FME sætir stöðugu aðhaldi heima og heiman. Um okkur var fjallað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, finnski bankasérfræðingurinn Kaarlo Jännäri skrifaði þekkta skýrslu um starfsemina og lagði til ýmis atriði til úrbóta, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fylgist með okkur, nýleg úttekt á hvernig Fjármálaeftirlitið fullnægir svonefndum kjarnareglum Basel um skilvirkt eftirlit liggur fyrir og í tengslum við umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu hefur regluverk verið rýnt og starfsheimildir sömuleiðis.

Fjármálaeftirlitið er með öðrum orðum ekki eyland heldur hluti af alþjóðlegu umhverfi á sínu sviði. Það starfar í samræmi við reglur, staðla og leiðbeiningar sem settar eru á grundvelli aðildar okkar að Evrópska efnahagssvæðinu og hlutverks okkar sem áheyrnarfulltrúa í nýstofnuðum evrópskum eftirlitsstofnunum á öllum sviðum fjármálamarkaða (fjármálafyrirtækja, vátryggingastarfsemi, lífeyrissjóða og verðbréfamarkaða).

Gangverk okkar er þannig hluti af stærri heild og breytist ekki verulega hverjir svo sem starfa í Fjármálaeftirlitinu á hverjum tíma og hver svo sem situr í stóli forstjóra.

Fullyrðingar sem eiga ekki við rök að styðjast

Ýmsar fullyrðingar hafa komið fram um starfsemi Fjármálaeftirlitsins í opinberri umræðu undanfarinna daga sem ástæða er til að leiðrétta. Því er til dæmis haldið fram að rannsóknarvinna vegna efnahagshrunsins sé meira eða minna í uppnámi. Þetta á ekki á við rök að styðjast. Fjarri því.

Rannsóknir á efnahagshruninu ganga samkvæmt áætlun. Þessi þáttur starfseminnar er tímabundinn og er gert ráð fyrir að hann vari til loka árs 2012.  Því skal einnig til haga haldið að rannsóknarvinnan er aðeins hluti starfseminnar en 15 manns vinna nú að rannsóknarvinnunni af alls 115 starfsmönnum Fjármálaeftirlitsins.

Starfsemi Fjármálaeftirlitsins hverfist með öðrum orðum ekki um rannsóknir á ætluðum refsiverðum brotum í aðdraganda bankahrunsins, alls ekki. Hinn eiginlegi starfsvettvangur okkar er og verður sá að styðja við og styrkja heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti í fjármálaþjónustu á Íslandi með því að fylgjast með að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög og reglur þar að lútandi, greina áhættur í rekstri þeirra og meta til eiginfjárkrafna, leiðbeina og gera athugasemdir eða krefjast úrbóta eftir atvikum.

Við munum vinna okkur traust

Ég gerði mér grein fyrir því í aðdraganda tíðindanna í síðastliðinni viku að ég kynni að standa frammi fyrir því að taka að mér starf forstjóra fyrirvaralaust og við erfiðar innri aðstæður í Fjármálaeftirlitinu. Ég tók þeirri áskorun og horfi fram á veginn í starfseminni, ásamt stjórn, öðrum stjórnendum og starfsmönnum FME.

Mér er þetta bæði ljúft og skylt, enda uppalin í bankaeftirliti í þeim skilningi að bankaeftirlit Seðlabanka Íslands var minn fyrsti fasti vinnustaður að afloknu stúdentsprófi þegar ég réð mig þangað sem ritari. Ég var síðan viðloðandi bankaeftirlitið á námsárunum en eftir lagapróf 1983 skildu leiðir í þau 7 ár sem ég stundaði framhaldsnám í lögfræði í Toronto í Kanada og starfaði sem dómarafulltrúi. Ég réð mig síðan sem lögfræðingur í bankaeftirlitið árið 1990 og starfaði þar til 1995 er ég tókst á hendur frekari störf í fagumhverfi fjármálaþjónustu við EFTA skrifstofuna í Brussel. Þá gegndi ég síðar starfi framkvæmdastjóra Fjölgreiðslumiðlunar á upphafsárum þess fyrirtækis meðfram lögmannsstörfum. Ég fékk dýrmæta reynslu af störfum í stjórnsýslunni sem skrifstofustjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu í 7 ár. Síðasta árið áður en ég réð mig til Fjármálaeftirlitsins sem yfirlögfræðingur var ég settur héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Ég kom því „heim“ í ákveðnum skilningi um mitt ár 2010 þegar ég var ráðinn yfirlögfræðingur Fjármálaeftirlitsins.

Fyrirtæki á fjármálamarkaði gegna mikilvægu hlutverki í þágu almennings, þeim er treyst fyrir fjármunum almennings til ávöxtunar og endurgreiðslu, þau bera ábyrgð á virkum og traustum greiðslukerfum þannig að verslun og viðskipti geti gengið greiðlega fyrir sig og þau veita lán og aðra fyrirgreiðslu til einstaklinga og fyrirtækja til þarfra verkefna. Þannig skal stuðlað að skilvirkri og traustri fjármálastarfsemi og fjármálastöðugleika sem hlutverk Fjármálaeftirlitsins er að standa vörð um.

Við starfsmenn Fjármálaeftirlitsins þurfum að leggja hart að okkur til að þessi mikilvæga stofnun njóti þess trausts sem eðli starfseminnar krefst. Það er verkefni sem við stöndum frammi fyrir og þar mun ég ekki liggja á liði mínu.

Garðabær, 4. mars 2012

Unnur Gunnarsdóttir

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica