Fréttir


NOVIS ákveður að hætta sölu Wealth Insuring á Íslandi

19.9.2019

Slóvakíska vátryggingafélagið NOVIS hefur selt líftryggingaafurðina Wealth Insuring á Íslandi frá því snemma árs 2018 til nokkurs fjölda íslenskra vátryggingataka. Í ljósi framangreinds telur Fjármálaeftirlitið ástæðu til þess að vekja athygli á fréttatilkynningu á heimasíðu félagsins en þar kemur fram að NOVIS hefur tekið ákvörðun um að hætta sölu Wealth Insuring á Íslandi.

Ástæða þess að félagið stöðvar sölu Wealth Insuring er innleiðing IDD tilskipunarinnar nr. 2016/97 hér á landi. Tilskipunin gerir auknar kröfur til vátryggingafélaga um skilgreiningu viðeigandi markhópa sem vátryggingaafurð er dreift til. NOVIS metur það sem svo að umrædd afurð geti, samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar, einungis talist hæfa einstaklingum sem búa yfir fullnægjandi þekkingu og reynslu af fjárfestingum. Þá tekur félagið fram að þessum sjónarmiðum hafi verið komið á framfæri við félagið af nokkrum eftirlitsaðilum í Evrópu, en Fjármálaeftirlitið er á meðal þeirra eftirlitsaðila sem hafa átt í miklum samskiptum við félagið varðandi álitaefni í tengslum við afurðina.

NOVIS tekur fram í tilkynningunni að ákvörðunin hafi engin áhrif á gerða samninga sem eru í gildi hjá viðskiptavinum félagsins.

Lesa má fréttatilkynninguna í heild sinni á heimasíðu NOVIS:

https://www.novis.eu/is/news/termination-of-sales-novis-wealth-insuring-new-product-offer-novis-life-savings-plan

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica