Fréttir


Gagnaskil til Fjármálaeftirlitsins í tengslum við innleiðingu CRD IV

24.11.2015

Fjármálaeftirlitið hefur tekið saman áætlun um gagnaskil og skiladagsetningar sem tengjast innleiðingu á CRD IV (hér eftir CRD IV gagnaskil) og er áætlunin nú komin á vef Fjármálaeftirlitsins . CRD IV er samevrópskt regluverk fyrir fjármálafyrirtæki sem starfa á innri markaði ESB. Eins og áður hefur verið kynnt tekur ný skilatafla Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar (hér eftir EBA) tekur gildi 1. janúar 2016 og þá styttast skilafrestir vegna CRD IV gagnaskila.

Fjármálaeftirlitið mun fara yfir breytingar á gagnaskilum á kynningarfundum sem verða auglýstir sérstaklega. Fjármálaeftirlitið minnir enn fremur á að EBA gefur reglulega út ítarlegar leiðbeiningar á heimasíðu sinni í tengslum við gagnaskil. Er fjármálafyrirtækjum bent á að kynna sér þær og fylgjast vel með þróuninni. Á vef Fjármálaeftirlitsins hefur einnig verið birt yfirlit (e. Roadmap)  frá upplýsingatæknisviði EBA yfir gagnaskil og þróun gagnalíkana.

Fjármálaeftirlitið hefur ákveðið að falla frá skylduskilum á töflum 18 og 19 í FINREP (XBRL) þann 30. nóvember nk. Fjármálafyrirtæki sem gera upp skv. IFRS þurfa að standa skil á öllum töflum í FINREP (þ.m.t. 18 og 19) í raunumhverfi miðað við samstæðugrunn í síðasta lagi þann 11. febrúar 2016, miðað við uppgjörsdagsetningu 31. desember 2015.

Áætlað er að fjármálafyrirtæki sem gera upp á móðurfélagsgrunni verði krafin um skil á FINREP (XBRL) m.v. árslok 2015 í fyrsta skipti þann 31. mars 2016. EBA hefur unnið að þróun á gagnalíkani svo hægt verði að taka á móti slíkum gögnum. Nánari upplýsingar vegna þessa verður að finna í skýrsluskilayfirliti fyrir árið 2016 sem birt verður á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins eins og venja er.

Ekki er gert ráð fyrir sérstökum prufuskilum vegna þeirra skýrslna sem teknar verða upp á árinu 2016, enda hafa gagnalíkön vegna þeirra þegar verið prófuð. Skýrslurnar byggja á sömu tegundaröðum og COREP og FINREP skýrslurnar. Því er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið muni geta tekið á móti gögnum sem fjármálafyrirtækjum ber að senda. Fjármálafyrirtæki hafa þegar sýnt fram á að þau geta sent gögn með þeim tegundaröðunum sem eru í notkun. Því er ekki lengur þörf á sérstökum prufuskilum, hvort sem þau eru valkvæð eða skylda, líkt og var í upphafi þegar byrjað var að taka á móti gögnum á XBRL formi. Þó mun fjármálafyrirtækjum alltaf standa til boða að senda gögn til prófunar inn í prufuumhverfi Fjármálaeftirlitsins, óski þau eftir því.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica