Fréttir


Fjármálaeftirlitið hefur lokið könnunar- og matsferli hjá Arion banka hf., Íslandsbanka hf. og Landsbankanum hf.

19.10.2015

Fjármálafyrirtæki ber að hafa yfir að ráða tryggu eftirlitskerfi með áhættu. Stjórn og framkvæmdastjóri fyrirtækisins skulu reglulega leggja mat á eiginfjárþörf þess með hliðsjón af þeim áhættum sem felast í starfseminni, sbr. lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og reglur nr. 215/2007 um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja. Matið fer fram í svonefndu innramatsferli (e. Internal Capital Adequacy Assessment Process, lCAAP) og skal fjármálafyrirtæki gera Fjármálaeftirlitinu grein fyrir matinu þegar eftir því er óskað í svonefndri ICAAP-skýrslu.

Fjármálaeftirlitið leggur mat á þær áhættur sem felast í starfsemi fjármálafyrirtækis í svonefndu könnunar- og matsferli (e. Supervisory Review and Evaluation Process, SREP). Til grundvallar ferlinu liggja einkum upplýsingar sem fram koma í ICAAP-skýrslu, ársreikningi hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis og reglubundnum skýrsluskilum þess. Þá aflar Fjármálaeftirlitið  upplýsinga á fundum sem haldnir eru með fulltrúum fjármálafyrirtækisins um afmarkaða áhættuþætti og með öðrum samskiptum við fyrirtækið á meðan á ferlinu stendur.

Könnunar- og matsferlið leiðir til niðurstöðu um það að hve miklu leyti þær ráðstafanir sem hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki hefur gripið til séu nægjanlegar, hvort stjórnun sé traust og hvort eiginfjárgrunnur sé fullnægjandi með hliðsjón af þeim áhættum sem felast í starfseminni. Í ferlinu er meðal annars lagt mat á stjórnarhætti, viðskiptaáætlun, útlána- og samþjöppunaráhættu, markaðsáhættu, rekstraráhættu, laga- og stjórnmálaáhættu, lausafjár- og fjármögnunaráhættu, álagspróf og áhrif væntanlegra eiginfjárauka. Á grundvelli ferlisins hefur Fjármálaeftirlitið heimild til að mæla fyrir um hærri eiginfjárgrunn af áhættugrunni en sem nemur hinu 8% lögbundna lágmarki, endurbætur á innri ferlum, niðurfærslu á eignum við útreikning á eiginfjárgrunni, hömlur eða takmörkun á starfsemi hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis og að dregið sé úr áhættum sem starfsemi þess felur í sér. Jafnframt getur Fjármálaeftirlitið komið ýmsum ábendingum á framfæri í ferlinu.

Arion banki hf., Íslandsbanki hf. og Landsbankinn hf. skiluðu Fjármálaeftirlitinu ICAAP-skýrslu, miðað við ársreikning 2014, í mars og apríl 2015. Í kjölfarið hófst formlegt könnunar- og matsferli hjá Fjármálaeftirlitinu og sendi stofnunin bönkunum drög að niðurstöðu ferlisins í júlí 2015 þar sem bankarnir fengu tækifæri til að koma á framfæri andmælum við drögin, sbr. IV. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Andmæli bankanna þriggja bárust í ágúst og september 2015. Fjármálaeftirlitið hefur nú lokið við könnunar- og matsferli hjá Arion banka hf., Íslandsbanka hf. og Landsbankanum hf. og sendi stofnunin bönkunum skýrslur um niðurstöðu þess í október 2015.

Fjármálaeftirlitið birtir ekki niðurstöðu könnunar- og matsferlis hjá fjármálafyrirtækjum en stofnunin hefur til skoðunar að auka gagnsæi á þessu sviði á næsta ári.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica