Ákvarðanir og gagnsæi


Gagnsæistilkynning vegna athugasemda við viðskiptahætti hjá Verði tryggingum hf.

12.6.2014

Fjármálaeftirlitinu barst ábending um að Vörður tryggingar hf. hefði einhliða og án samráðs við vátryggingartaka breytt lögbundinni brunatryggingu skála sem var í smíðum (sk. smíðatryggingu) í lausafjártryggingu.

Vörður hf. benti á að smíðatrygging er lögbundin vátrygging, ætluð húsum í smíðum og því tímabundin vátrygging þar til viðkomandi húseign fær brunabótamat. Í því tilviki sem hér um ræddi hefði ekki verið um fasteign með lóðarréttindum að ræða og því hefði lögbundin smíðatrygging verið röng trygging fyrir þá hagsmuni sem um ræddi. Þá benti Vörður hf. á að hagsmunir vátryggingartaka væru eftir sem áður tryggðir þar sem brunatrygging lausafjár bætti tjón af völdum bruna með sambærilegum hætti og smíðatrygging ásamt því sem vátryggingarfjárhæð væri sú sama.

Fjármálaeftirlitið taldi að hér hefði verið um að ræða slit vátryggingarsamnings í skilningi 15. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga og gerð nýs samnings, þ.e. einhliða slit smíðatryggingar og gerð samnings um lausafjártryggingu.

Samkvæmt 15. gr. laga um vátryggingarsamninga er vátryggingafélagi heimilt að segja upp vátryggingarsamningi í þeim tilvikum sem 21. gr. og 3. mgr. 47. gr. laganna heimila eða fyrir hendi séu sérstök atvik sem skýrlega eru tilgreind í vátryggingarskilmálum, enda megi telja uppsögnina sanngjarna.

Fjármálaeftirlitið tók ekki afstöðu til þess hvort Verði tryggingum hf. hefði verið heimilt að slíta samningnum í því tilviki sem hér um ræddi. Hins vegar taldi Fjármálaeftirlitið ljóst að Verði tryggingum hf. hefði borið að veita vátryggingartaka skriflegar og rökstuddar upplýsingar um slit samningsins áður en til hans kom skv. 2. mgr. 15. gr. laga um vátryggingarsamninga, sbr. einnig 6. gr. laga nr. 56/2010 um vátryggingastarfsemi varðandi góðar venjur og viðskiptahætti á vátryggingamarkaði.

Samkvæmt framanrituðu og á grundvelli 2. mgr. 10. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi gerði Fjármálaeftirlitið athugasemdir við að vátryggingartaka hefði ekki verið veittar viðeigandi upplýsingar. Jafnframt fór Fjármálaeftirlitið fram á að félagið yfirfæri verkferla sína vegna tilvika sem þessara til að tryggja að sambærileg atvik ættu sér ekki stað aftur.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica