Fréttir


Útganga Bretlands úr ESB án samnings: Upplýsingar til neytenda

26.2.2019

Talsverð óvissa er uppi um fyrirkomulag útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu (ESB). Ekki er því hægt að útiloka útgöngu Bretlands úr ESB án samnings. Af þessum sökum hafa íslensk stjórnvöld sett upp sérstaka upplýsingasíðu. Allir þeir sem eiga í viðskiptum eða öðrum samskiptum við Bretland eru hvattir til að kynna sér efni síðunnar.

Frá og með þeim degi sem Bretland gengur úr ESB án samnings verður landið að óbreyttu skilgreint sem þriðja ríki, þ.e. ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) á grundvelli Evrópulöggjafar á fjármálamarkaði, í samskiptum við Ísland og önnur ríki innan EES. Áhrif þess á bresk og íslensk fjármálafyrirtæki munu, eðli málsins samkvæmt, fara eftir starfsemi fyrirtækja í hverju tilviki fyrir sig.

Á upplýsingasíðu stjórnvalda vegna útgöngu Bretlands án samnings er sérstaklega fjallað um fjármálaþjónustu og þau áhrif sem búist er við að útganga án samnings hafi á hana. Til viðbótar við þær upplýsingar sem þar koma fram vill Fjármálaeftirlitið koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri við neytendur á fjármálamarkaði:

Til neytenda á fjármálamarkaði

Fjármálaeftirlitið hvetur neytendur sem eru í viðskiptum við bresk fyrirtæki á fjármálamarkaði til að hafa samband við þau og óska eftir upplýsingum um hvort útganga Bretlands án samnings muni hafa áhrif á viðskiptasamband þeirra. Bresk vátryggingafélög hafa t.d. um árabil veitt vátryggingaþjónustu hér á landi í gegnum innlenda vátryggingamiðlara. Mikilvægt er að viðskiptavinir breskra félaga hafi samband við þjónustuveitendur sína vegna þessa til að gæta að réttarstöðu sinni, þ. á m. gildi vátryggingasamninga.

Fjármálaeftirlitið fylgist með framvindu mála sem tengjast fyrirhugaðri útgöngu Bretlands úr ESB og mun birta frekari upplýsingar um leið og mögulegt er. Þá mun Fjármálaeftirlitið einnig veita aðstoð eftir bestu getu og bendir því neytendum sem hafa spurningar vegna málsins á að senda fyrirspurnir á fme@fme.is.

Fjármálaeftirlitið er ekki í aðstöðu til að veita upplýsingar um einstök viðskiptasambönd en getur veitt almennar upplýsingar og ráðleggingar.

Frekari upplýsingar frá breskum stjórnvöldum til neytenda

Bresk yfirvöld hafa sett á laggirnar upplýsingasíðu vegna útgöngu Bretlands úr ESB. Þar má m.a. finna leiðbeiningar fyrir viðskiptavini banka, vátryggingafélaga og annarra fjármálafyrirtækja innan EES verði af útgöngu Bretlands án samnings.

Breska viðskiptaháttaeftirlitið, Financial Conduct Authority (FCA), hefur einnig birt upplýsingar sem ætlaðar eru neytendum.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica