Fréttir


Upplýsingar um áhættusöm ríki

1.9.2017

Fjármálaeftirlitið vekur athygli á yfirlýsingu Financial Action Task Force (FATF) sem samþykkt var í kjölfar fundar hins alþjóðlega framkvæmdahóps hinn 23. júní 2017.

 

Í nefndri yfirlýsingu kemur fram að ríki, sem eru aðilar að FATF, skuli grípa til sérstakra fyrirbyggjandi varúðarráðstafa gagnvart Norður-Kóreu, enda steðji viðvarandi ógn að hinum alþjóðlega fjármálamarkaði vegna aðgerðarleysis ríkisins gagnvart aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

 

Í samræmi við 2. mgr. 26. gr. laga nr. 64/2006 hefur Fjármálaeftirlitið beint þeim tilmælum til tilkynningarskyldra aðila, sem falla undir a-e og m-n liði 1. mgr. 2. gr. laganna, að gæta sérstakrar varúðar í viðskiptum við aðila frá Norður-Kóreu, hvort heldur einstaklinga eða lögaðila, þar með talda aðila í fjármálaþjónustu. Þá hafa tilkynningarskyldir aðilar verið hvattir til að beita aukinni áreiðanleikakönnun í samræmi við áhættu gagnvart einstaklingum og lögaðilum frá Íran.

 

Í kjölfar nefnds fundar FATF var einnig gefin út skýrsla um úrbætur í málefnum tengdum aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka á alþjóðlegum vettvangi. Í skýrslunni er að finna lista yfir ríki sem nýverið hafa lýst yfir vilja til að framfylgja aðgerðaáætlun, sem unnin hefur verið í samstarfi við FATF, til að taka á þeim annmörkum sem eru til staðar á þessu sviði.

 

Þau ríki sem eru talin með alvarlega annmarka eru eftirfarandi:

  • Bosnía og Hersegóvína
  • Eþíópía
  • Írak
  • Sýrland
  • Úganda
  • Vanúatú
  • Jemen

Í samræmi við fyrrgreinda 2. mgr. 26. gr. laga nr. 64/2006 hefur Fjármálaeftirlitið beint þeim tilmælum til tilkynningarskyldra aðila að gefa aðilum frá nefndum ríkjum sérstakan gaum, m.t.t. aukinnar hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

 

Fyrrnefnda yfirlýsingu má finna hér og skýrsluna hér.

 

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica