Fréttir


Umfjöllun um BRRD á vef Fjármálaeftirlitsins

19.1.2016

Fjármálaeftirlitið hefur birt umfjöllun um tilskipun 2014/59/ESB um endurreisn og skilameðferð fjármálafyrirtækja (e. Bank Recovery and Resolution Directive) á vef sínum. Tilskipunin, sem oftast er nefnd BRRD, tók gildi innan Evrópusambandsins þann 1. janúar 2015.

Ljóst er að innleiðing tilskipunarinnar mun hafa nokkur áhrif á fjármálaeftirlit og fjármálafyrirtæki. Nefnd á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytis  vinnur nú að frumvarpi þar sem ákvæði tilskipunarinnar verða innleidd í íslenskan rétt. Að auki hefur Fjármálaeftirlitið hafið undirbúning að innleiðingu á tæknistöðlum og viðmiðunarreglum vegna ákvæða tilskipunarinnar sem falla undir starfsemi eftirlitsins.

BRRD tilskipunin fjallar í megindráttum um áætlun um endurreisn (e. recovery) sem fjármálafyrirtæki þurfa að vera með og virkja ef álag skapast í starfsemi þeirra, snemmbær inngrip (e. early intervention) eftirlitsstofnana í starfsemi fjármálafyrirtækja og skilameðferð (e. resolution) ef nauðsynlegt er talið að eftirlitsstofnanir taki yfir eða grípi inn í starfsemi fjármálafyrirtækja.

Markmið tilskipunarinnar er að vernda fjármálastöðugleika, hvort sem er í einstöku aðildarríki eða á innri fjármálamarkaði Evrópusambandsins, draga úr áhættu í rekstri fjármálafyrirtækja, vernda innstæðueigendur, fé almennings og mikilvæga starfsemi fjármálafyrirtækja.

Mikilvægt er að fjármálafyrirtæki, þá sérstaklega lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki, kynni sér efni tilskipunarinnar og hefji undirbúning að þeim ráðstöfunum sem innleiðing tilskipunarinnar mun hafa í för með sér. Má þar sérstaklega nefna undirbúning að gerð endurreisnaráætlana sem öllum lánastofnunum og verðbréfafyrirtækjum verður ætlað að hafa.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica