Fréttir


Túlkun Fjármálaeftirlitsins vegna markaðssetningar, dreifingar og sölu á tvíundar valréttum og mismunasamningum

5.7.2018

Fjármálaeftirlitið telur að markaðssetning, dreifing og sala á tvíundar valréttum og mismunasamningum sem ráðstöfun Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunarinnar (ESMA) frá 27. mars 2018 nær yfir sé andstæð eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum og venjum í verðbréfaviðskiptum skv. 5. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.   Ráðstöfun ESMA, sem byggir á heimildum í 40. gr. reglugerðar ESB nr. 600/2014 (MiFIR) sem hefur enn ekki verið innleidd á Íslandi, var gerð í ljósi þess að umræddir fjármálagerningar eru áhættusamir, hafa hátt flækjustig og hafa orðið til þess að fjárfestar hafa tapað umtalsverðum fjármunum.

Ráðstöfun ESMA felur í sér annars vegar algjört bann við markaðssetningu, dreifingu og sölu á tvíundar valréttum til almennra fjárfesta og hins vegar skorður á markaðssetningu, dreifingu og sölu á mismunasamningum til almennra fjárfesta. Skorður vegna mismunasamninga felast í hámarks skuldsetningu, reglum um lokun á stöðum ef skuldsetning viðskiptareiknings fer yfir viðmið, vernd við því að viðskiptareikningur fari í neikvæða stöðu, banni við hvatagreiðslum í tengslum við sölu og því að fyrirtæki veiti almennum fjárfestum staðlaðar aðvaranir.

Nánari upplýsingar um ráðstöfun ESMA má nálgast á eftirfarandi slóð: https://www.esma.europa.eu/press-news/esma-news/esma-agrees-prohibit-binary-options-and-restrict-cfds-protect-retail-investors

Nálgast má spurningar og svör um ráðstöfun ESMA á ensku á eftirfarandi slóð: https://www.esma.europa.eu/sites/default/files/library/esma71-98-125_faq_esmas_product_intervention_measures.pdf.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica