Fréttir


Þjónustuveitendum með sýndarfé, rafeyri, gjaldmiðla og stafræn veski skylt að skrá sig fyrir lok júlímánaðar

6.7.2018

Fjármálaeftirlitið vekur athygli á lögum nr. 91/2018 um breytingu á lögum nr. 64/2006 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem tóku gildi 29. júní sl. þess efnis að þjónustuveitendur sem nú þegar bjóða upp á viðskipti milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla og þjónustuveitendur stafrænna veskja skuli óska eftir skráningu hjá Fjármálaeftirlitinu eigi síðar en einum mánuði frá gildistöku laganna. Þeim sem veita ofangreind þjónustu ber með öðrum orðum að óska eftir skráningu fyrir lok júlímánaðar 2018.  Fjármálaeftirlitið skal taka afstöðu til skráningarinnar innan 30 daga eftir að umsókn berst.

Í tengslum við ofangreindar breytingar á lögum nr. 64/2006 hefur Fjármálaeftirlitið gefið út reglur nr. 670/2018 um gjaldeyrisskiptastöðvar, peninga- og verðmætasendingarþjónustu, þjónustuveitendur sem bjóða upp á viðskipti milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla og þjónustuveitendur stafrænna veskja. Reglurnar koma í stað eldri reglna nr. 917/2009 um gjaldeyrisskiptastöðvar og peninga- og verðmætasendingarþjónustu.

Drög að reglunum voru send í umsagnarferli 11. júní 2018 og bárust Fjármálaeftirlitinu engar umsagnir um drögin.

Fjármálaeftirlitið beinir því til þeirra sem veita framangreinda þjónustu að sækja um skráningu eigi síðar en 30. júlí næstkomandi. Nánari upplýsingar um gögn og upplýsingar sem skulu fylgja umsókn um skráningu má finna í 3. gr. reglnanna.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica