Fréttir


Úttekt Fjármálaeftirlitsins á uppsögnum vátryggingasamninga að frumkvæði vátryggingafélaga

28.2.2011

I. Inngangur
Í lögum nr. 30/2004 eru settar þröngar skorður við því að vátryggingafélög geti sagt upp vátryggingum að eigin frumkvæði. Fjármálaeftirlitið aflaði nýlega upplýsinga, bæði frá skaðatryggingafélögum og líftryggingafélögum, um fjölda uppsagna og niðurfellinga vátrygginga að frumkvæði vátryggingafélaga.

Heimildir vátryggingafélaga til uppsagna á skaðatryggingum og líftryggingum eru að mörgu leyti sambærilegar. Þó eru þrengri skorður settar við uppsögn líftrygginga en annarra vátrygginga.

II. Uppsagnir skaðatrygginga
Heimildir til uppsagna á skaðatryggingum er að finna í I. hluta laganna, sem fjallar um skaðatryggingar. Ákvæðin sem um ræðir eru 15. gr., 2. mgr. 18. gr., 21. gr., 1. mgr. 33. gr., og 3. mgr. 47. gr. laganna, en nánari grein er gerð fyrir inntaki nefndra lagaákvæða hér fyrir neðan.

15. gr.: Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. getur vátryggingafélag sagt upp vátryggingarsamningi samkvæmt reglum 21. gr. og 3. mgr. 47. gr. Í öðrum málslið ákvæðisins er kveðið á um að í öðrum tilvikum en 21. og 3. mgr. 47. gr. taka til getur félagið aðeins sagt upp vátryggingarsamningi ef fyrir hendi eru sérstök atvik sem skýrlega eru tilgreind í vátryggingarskilmálum, enda megi telja uppsögnina sanngjarna.

2. mgr. 18. gr.: Þetta ákvæði fjallar um endurnýjun vátryggingar. Samkvæmt því getur félag eingöngu neitað að endurnýja vátryggingu þegar fyrir liggja sérstakar ástæður sem leiða til þess að sanngjarnt er að segja henni upp.

21. gr.: Greinin kveður á um að verði félaginu ljóst að þær upplýsingar sem það hefur fengið um áhættuna* séu rangar eða ófullnægjandi svo verulegu nemi þá geti það sagt upp vátryggingu með 14 daga fyrirvara. Hafi vátryggingartaki viðhaft sviksamlega háttsemi getur félagið slitið vátryggingunni, svo og öðrum vátryggingarsamningum sem það hefur gert við vátryggingartaka, án fyrirvara.

1. mgr. 33. gr.: Í ákvæðinu er fjallað um niðurfellingu vátryggingar vegna greiðsludráttar á iðgjöldum. Hafi iðgjald ekki verið greitt þegar greiðslufresti lýkur getur vátryggingafélagið sent greiðsluáskorun þess efnis að iðgjaldið verði greitt innan 14 daga. Sé ekki greitt innan frestsins og vátryggingafélag hefur í nefndri greiðsluáskorun áskilið sér rétt til að fella iðgjaldið niður getur það fellt vátrygginguna niður að loknum frestinum.

3. mgr. 47. gr.: Ákvæðið fjallar um vátryggingasvik og vísar til 2. mgr. ákvæðisins þar sem segir að ef vátryggður veitir af ásetningi rangar eða ófullnægjandi upplýsingar sem hann veit eða má vita að leiða til þess að hann fær greiddar bætur sem hann á ekki rétt til fellur niður allur réttur hans samkvæmt vátryggingunni og öðrum vátryggingarsamningum vegna hins tiltekna vátryggingaratburðar. Sé háttsemi vátryggðs ekki alvarleg, hún varði aðeins lítinn hluta kröfunnar eða sérstakar ástæður mæla með getur hann þó fengið bætur að hluta.

Á neðangreindri töflu má sjá uppsagnir eða niðurfellingu vátryggingasamninga allra skaðavátryggingafélaga frá árinu 2007 til 1. desember 2010. Flokkað er eftir ástæðum uppsagnar eða niðurfellingar.

Fjöldi uppsagna samtals Uppsögn skv. 21. gr., sbr. 15. gr.  Uppsögn skv. 3. mgr. 47. gr., sbr. 15. gr.  Uppsögn skv. 2. málsl. 1. mgr. 15. gr.  Uppsögn skv. 2. mgr. 18. gr.  Niðurfelling vegna greiðsludráttar sbr. 1. mgr. 33. gr.  Uppsögn á öðrum grundvelli. 
2007 0 0 1 0 6.615 0
2008 1 3 0 10 9.733 0
2009 1 0 0 13 10.166 0
2010-1.des. 2 4 14 102 12.532 0
                         
Samtals 4 7 15 125 39.046 0

Eins og framangreind tafla ber með sér er algengast að vátryggingarsamningur falli niður að frumkvæði vátryggingafélags vegna greiðsludráttar á iðgjöldum. Töluverð fjölgun er á niðurfellingu vátryggingar af þessari ástæðu milli áranna 2007 og 2008 og hefur niðurfellingum farið fjölgandi síðan þá.

III. Uppsagnir persónutrygginga
Til persónutrygginga teljast allar aðrar vátryggingar en skaðatryggingar sbr. líf-, sjúkra- og slysatryggingar. Rétt er að geta þess að síðustu tveir vátryggingaflokkarnir, það er sjúkra- og slysatryggingar, geta bæði fallið í flokk skaða- og persónutrygginga. Heimildir til uppsagna á persónutryggingum er að finna í II. hluta laganna sem fjallar um persónutryggingar en eins og áður segir eru heimildir til uppsagna líftrygginga þrengri en annarra vátrygginga. Ákvæðin sem um ræðir eru 76. gr., 2. mgr. 79. gr., 84. gr., 1. mgr. 96. gr. og 3. mgr. 120. gr. laganna, en nánari grein er gerð fyrir inntaki nefndra lagaákvæða hér fyrir neðan.

76. gr.: Ákvæðið er sambærilegt og 15. gr., nema að því leyti að gerður er greinarmunur á því hvort um líftryggingar eða slysa- og sjúkratryggingar er að ræða. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins getur vátryggingafélag ekki slitið líftryggingu í öðrum tilvikum en kveðið er á um í 84. gr. Í 2. mgr. kemur fram að heimilt sé að slíta slysa- og sjúkratryggingum samkvæmt reglum 84. gr. og 3. mgr. 120. gr. Í öðrum málslið 2. mgr. er kveðið á um að í öðrum tilvikum en 84. gr. og 3. mgr. 120. gr. ná yfir geti félagið því aðeins sagt upp slysa- eða sjúkratryggingu að fyrir hendi séu sérstök atvik sem skýrlega eru tilgreind í vátryggingarskilmálum, enda megi telja uppsögnina sanngjarna.
 
2. mgr. 79. gr.: Í ákvæðinu kemur fram að heimilt sé að hafna því að endurnýja slysa- eða sjúkratryggingar þegar fyrir liggja sérstakar ástæður. Líftryggingum er hins vegar ekki hægt að segja upp á þessum grundvelli.

84. gr.: Ákvæðið er samhljóða 21. gr. og tekur bæði til líftrygginga og sjúkra- og slysatrygginga.

1. mgr. 96. gr.: Ákvæðið er samhljóða 1. mgr. 33. gr. og tekur bæði til líftrygginga og sjúkra- og slysatrygginga.

3. mgr. 120. gr.: Ákvæðið er samhljóða 3. mgr. 47. gr. og tekur bæði til líftrygginga og sjúkra- og slysatrygginga.

Á neðangreindri töflu má sjá uppsagnir eða niðurfellingu vátryggingasamninga allra líftryggingafélaga frá árinu 2007 til 1. desember 2010. Flokkað er eftir ástæðum uppsagnar eða niðurfellingar.

Fjöldi uppsagna samtals Uppsögn líftryggingar skv. 84. gr., sbr. 76. gr. Uppsögn slysa- eða sjúkratryggingar skv. 84. gr., sbr. 76. gr.  Uppsögn slysa- eða sjúkratryggingar skv. 3. mgr. 120. gr., sbr. 76. gr.  Uppsögn slysa- eða sjúkratryggingar skv. 2. málsl. 2. mgr. 76. gr.  Uppsögn slysa- eða sjúkratryggingar skv. 2. mgr. 79. gr.  Niðurfelling vegna greiðsludráttar sbr. 1. mgr. 96. gr.  Uppsögn á öðrum grundvelli. 
2007 8 1 0 0 0 2.723 0
2008 8 8 0 0 1 2.271 22
2009 1 2 0 0 1 2.737 11
2010-1. des. 10 2 0 0 0 2.783 0
                             
Samtals 27 13 0 0 2 10.514 33

Eins og í skaðatryggingum er helsta ástæða niðurfellingar vátryggingarsamnings í persónutryggingum, að frumkvæði vátryggingafélags, vegna greiðsludráttar á iðgjöldum. Hins vegar er ekki um sömu sveiflur að ræða milli ára og í skaðatryggingum. Í töflunni kemur jafnframt fram að árið 2008 hafi 22 vátryggingasamningum verið sagt upp eða felldir niður á öðrum grundvelli en tilgreint er í töflunni og 11 samningar árið 2009. Í þessum tilvikum var um hópvátryggingar að ræða, sem felldar voru niður skv. ákvæðum skilmála þar sem vátryggjandinn lagði niður starfsemi.

 

* Um áhættuna er fjallað í 19. gr. laganna sem fjallar um að vátryggingafélag geti, við gerð eða endurnýjun vátryggingasamnings, óskað eftir upplýsingum um atvik sem haft geta þýðingu við mat þess á áhættu við að taka að sér að vátryggja tiltekna hagsmuni. Vátryggingartaka eða þeim sem kemur fram fyrir hans hönd er skylt að veita rétt og tæmandi svör við spurningum félagsins. Þá hvílir jafnframt sú skylda á vátryggingartaka og/eða vátryggðum að veita að eigin frumkvæði upplýsingar um sérstök atvik sem hann veit, eða má vita, að hafa verulega þýðingu fyrir mat félagsins á áhættu.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica