Fréttir


Fjármálaeftirlitið athugar iðgjöld og viðskiptahætti vátryggingafélaga

22.2.2010

Fjármálaeftirlitið (FME) athugaði iðgjöld og viðskiptahætti vátryggingafélaga á síðari hluta ársins 2009. Við athugunina var lögð megináhersla á starfsemi félaganna í ökutækjatryggingum en einnig var horft til annarra vátryggingagreina. Athugunin fór fram á vettvangi hjá vátryggingafélögunum þar sem fundað var með forsvarsmönnum þeirra, auk þess sem fulltrúar FME fengu aðgang að upplýsingakerfum félaganna til að skoða og meta þróun í iðgjöldum.
Athugunin var gerð í ljósi mikils umróts á vátryggingamarkaði þar sem samkeppnisaðilar sökuðu hver annan um undirboð. Helstu niðurstöður Fjármálaeftirlitsins varðandi iðgjöld voru að í umhverfi harðnandi samkeppni og versnandi fjárhagsstöðu hafi vátryggingafélögin með auknum hætti leitað leiða til að tengja iðgjöld mati á áhættu hvers viðskiptavinar. Þetta þýðir að skilvísir, varkárir og tjónlausir viðskiptavinir geta notið betri kjara en aðrir. Fjármálaeftirlitið fagnar þessari þróun.
Tilefni þótti til að skoða viðskiptahætti félaganna í umhverfi harðnandi samkeppni. FME sá ástæðu til að gera sérstakar athugasemdir við viðskiptahætti tveggja vátryggingafélaga. Einnig leggur FME áherslu á að félögin gæti að afkomunni í markaðssókn sinni.
Í niðurstöðu athugana FME koma fram helstu áhersluatriði eftirlitsins varðandi ákvörðun iðgjalda. Áhersluatriðin fela í sér verklag sem FME leggur áherslu á að vátryggingafélögin fylgi. Í mörgum tilvikum eru áhersluþættirnir sameiginlegir eða sambærilegir hjá öllum félögum. Sameiginlegir áhersluþættir eru:
• Félögin gæti staðfestu í að verðleggja vátryggingar eftir raunverulegri áhættu. Dæmi um slíkt er þegar iðgjald kaskótrygginga er í samræmi við verðmæti ökutækis.
• Í stað flatra hækkana á iðgjaldaskrám verði leitað leiða til að verðlagning á vátryggingum einstakra viðskiptavina sé sem réttust, þ.e. í samræmi við raunverulegt mat á áhættu.
• Afslættir verði veittir í samræmi við tjónareynslu og mat félagsins á áhættu viðskiptavina.
• Mikilvægt er að iðgjöld og eigin áhættur fylgi breytingum á verðlagi þeirra þátta sem hafa áhrif á bótafjárhæðir. Slíkt takmarkar hættu á því að vátryggingafélögin verði fyrir verulegu tapi vegna verðlagshækkana. Sé slíkt ekki gert skapast einnig hætta á að vátryggingartakar þurfi síðar að taka á sig verulega hækkun iðgjalda í einu lagi.
• Verk utanaðkomandi aðila verði unnin á sem hagkvæmastan hátt án þess að það komi niður á tjónabótum til tjónþola. T.d. leggst FME ekki gegn því að settir séu notaðir varahlutir í bíla, svo fremi sem ekki er um eldri varahlut að ræða en árgerð bílsins segir til um og að fyrir liggi mat þjónustuaðila á gæðum varahlutarins. Minnt er á að samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga ber vátryggingafélögum að upplýsa tjónþola á fullnægjandi hátt um bótarétt sinn og veita sundurliðun á því hvernig bætur eru ákveðnar.
• Áhersla verði lögð á að vátryggingareksturinn standi undir sér.

Hægt er að nálgast ítarlega samantekt á athugun Fjármálaeftirlitsins hér.

Nánari upplýsingar veitir Sigurður G. Valgeirsson, sgv@fme.is, sími: 525-2700 og farsími: 840-3861

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica