Fréttir


Nýtt verklag við skráningu hæfra fjárfesta

7.9.2009

Fjármálaeftirlitið vill vekja athygli á nýju verklagi við framkvæmd e. og f. liðar 9. tl. 43. gr. og 53. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti (vvl.), en eins og fram kemur í 1. mgr. 53. gr. vvl. ber Fjármálaeftirlitinu að halda skrá yfir þá einstaklinga og þau litlu og meðalstóru fyrirtæki sem það hefur viðurkennt sem hæfa fjárfesta. Skrá Fjármálaeftirlitsins er aðgengileg útgefendum verðbréfa í þeim tilgangi að bjóða hæfum fjárfestum að vera með í útboði án þess að útbúa lýsingu.

Í e. og f. lið 9. tl. 43. gr. vvl. kemur fram að hæfir fjárfestar séu:

e. Einstaklingar búsettir á Íslandi, óski þeir skriflega eftir því við Fjármálaeftirlitið að vera viðurkenndir sem hæfir fjárfestar og uppfylla a.m.k. tvö af eftirfarandi þremur skilyrðum:

1.    fjárfestir hefur átt umtalsverð viðskipti á verðbréfamörkuðum næstliðna fjóra ársfjórðunga, að meðaltali a.m.k. tíu sinnum á hverjum ársfjórðungi,

2.    verðgildi verðbréfaeignar fjárfestis nemur meira en 41,8 millj. kr.,

3.    fjárfestir gegnir eða hefur gegnt í að minnsta kosti eitt ár stöðu á fjármálamarkaði sem krefst sérþekkingar á fjárfestingum í verðbréfum.

 

f. Lítil og meðalstór fyrirtæki með skráða skrifstofu á Íslandi, óski þau skriflega eftir því við Fjármálaeftirlitið að vera viðurkennd sem hæfir fjárfestar. Með litlum og meðalstórum fyrirtækjum er átt við félög sem samkvæmt síðasta ársreikningi eða samstæðureikningi sínum uppfylla a.m.k. tvö af eftirfarandi þremur skilyrðum:

1.    meðalfjöldi starfsmanna á fjárhagsárinu var innan við 250,

2.    niðurstöðutala efnahagsreiknings fór ekki yfir 3,6 milljarða kr.,

3.    hrein ársvelta fór ekki yfir 4,2 milljarða kr.

 

Fjármálaeftirlitið hefur túlkað ákvæði e. og f. liðar 9. tl. 43. gr. vvl. svo að ofangreind skilyrði verði ávallt að vera uppfyllt en ekki eingöngu þann dag sem sótt er um viðurkenninguna. Fjármálaeftirlitið hefur því tekið upp þá verklagsreglu að viðurkenna aðila sem hæfa fjárfesta eingöngu tímabundið, þ.e. frá 1. júní – 31. maí. Hæfir fjárfestar verða því fjarlægðir af skrá Fjármálaeftirlitsins 1. júní ár hvert nema þeir óski skriflega eftir því á tímabilinu 1. mars - 31. maí að vera áfram á skránni.

Beiðnina um að vera áfram á skrá Fjármálaeftirlitsins yfir hæfa fjárfesta er hægt að senda rafrænt á netfangið fme@fme.is. Í beiðninni þarf að koma fram nafn, kennitala og heimilisfang fjárfestis sem og yfirlýsing þess efnis að hann uppfylli enn skilyrði ákvæðisins. Athygli er vakin á því að fjárfestar bera sjálfir ábyrgð á því að staðhæfingar þeirra um að þeir uppfylli ofangreind skilyrði séu réttar og ber þeim að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um allar breytingar sem haft geta áhrif á flokkun þeirra sem hæfir fjárfestar. Fjárfestar sem hafa samband eftir 31. maí og vilja komast aftur á skrá yfir hæfa fjárfesta þurfa að senda inn nýja umsókn, sem finna má á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins, með viðeigandi fylgigögnum. Þá er athygli vakin á því að einstaklingum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem skráð eru sem hæfir fjárfestar hjá Fjármálaeftirlitinu er hvenær sem er heimilt að láta taka sig af skránni, sbr. 2. mgr. 53. gr. vvl.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica