Fréttir


Staða lífeyrissjóðanna árið 2008

2.9.2009

Á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins er að finna skýrslu um ársreikninga lífeyrissjóða fyrir árið 2008. Þar er jafnframt að finna excel skjal sem inniheldur talnaefni skýrslunnar. Skýrslan í heild sinni er hér en helstu niðurstöður hennar eru eftirfarandi:

Hrein raunávöxtun lífeyrissjóðanna, þ.e. ávöxtun umfram verðbólgu, lækkaði gríðarlega mikið milli ára og var -21,78%  samanborið við 0,5% á árinu 2007. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar sl. 5 ár var 2,5% og meðaltal sl. 10 ára var 3%. Má rekja þessi neikvæðu áhrif á afkomu lífeyrissjóðanna til erfiðleika á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum og þá sérstaklega falls viðskiptabankanna í október 2008.

Frett.02.09.2009.Mynd1

Heildareignir lífeyrissjóðanna námu tæplega 1.600 milljörðum króna í árslok 2008 samanborið við um 1.700 milljarða í árslok 2007. Nemur tapið um 6% sem samsvarar neikvæðri raunávöxtun um 19% miðað við vísitölu neysluverðs.

Iðgjöld lífeyrissjóðanna lækkuðu um 26% á milli ára eða úr 146 milljörðum króna í árslok 2007 í tæplega 116 milljarða króna í árslok 2008. Meginástæða þessarar miklu lækkunar er sú að árið 2007 seldu tveir lífeyrissjóðir eignarhlut sinn í Landsvirkjun, þ.e. Lífeyrissjóðir starfsmanna Reykjavíkurborgar sem seldu hlut sinn fyrir 23,9 milljarða og Lífeyrissjóðir starfsmanna Akureyrarbæjar sem seldu hlut sinn fyrir 3 milljarða. Greiðslan vegna sölunnar var færð sem innborgun frá Akureyrarbæ og Reykjavíkurborg  undir iðgjöld. Útgreiddur lífeyrir var 53 milljarðar árið 2008 en var rúmlega 46 milljarðar árið 2007.

Séreignarsparnaður í vörslu lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila á árinu 2008 jókst um 7,5% og nam 256 milljörðum króna samanborið við 238 milljarða í árslok 2007. Séreignarsparnaður í heild nam um 16% af heildareignum lífeyriskerfisins í árslok 2008. Iðgjöld til séreignarlífeyrissparnaðar hækkuðu úr 32,6 milljörðum króna í 33,4 milljarða króna á árinu 2008, eða um 2,4%.

Samkvæmt lögum um lífeyrissjóði skal vera jafnvægi á milli eigna og skuldbindinga lífeyrissjóða. Komi í ljós við tryggingafræðilega athugun að munur á eignum og skuldbindingum er yfir 10% eða meiri en 5% samfellt í fimm ár ber lífeyrissjóði að grípa til viðeigandi ráðstafana til að ná jafnvægi milli eigna og skuldbindinga. Þann 29. desember 2008 var sett inn bráðabirgðaákvæði sem heimilaði lífeyrissjóðum að hafa allt að 15% mun á milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga vegna lífeyris miðað við tryggingafræðilega athugun fyrir árið 2008, án þess að gera breytingar á samþykktum sjóðsins. 26 deildir lífeyrissjóða án ábyrgðar voru með neikvæða tryggingafræðilega stöðu í árslok 2008, þar af 4 deildir með meiri halla en 15% og verða því að skerða réttindi. Þeir lífeyrissjóðir sem njóta bakábyrgðar ríkis, sveitarfélags og banka eru undanþegnir ákvæðum laganna sem fjalla um jafnvægi milli eigna og skuldbindinga lífeyrissjóða. Lítil breyting er á stöðu þessara sjóða á milli ára en verulegur halli er á nánast öllum deildum.

Frett.02.09.2009.Mynd2

Um 8,6% af fjárfestingum lífeyrissjóðanna voru í óskráðum bréfum í árslok 2008 samanborið við um 6,1% í árslok 2007 en samkvæmt lögum höfðu lífeyrissjóðirnir heimild til að fjárfesta fyrir allt að 10% af eignum sínum í óskráðum bréfum. Með óskráðum bréfum er átt við þau verðbréf sem ekki hafa skráð kaup- og sölugengi á skipulegum markaði. Þann 29. desember 2008 var heimild til að fjárfesta í óskráðum bréfum hækkuð í 20%. Gengisbundnar fjárfestingar námu 29% í árslok 2008 en 27% í árslok 2007.

Á myndinni hér að neðan sést skipting eignasafna lífeyrissjóðanna m.v. 31.12.2008 og 31.12.2007, en athygli vekur að hlutabréfaeign dróst mikið saman á milli ára og innlán jukust. Meginástæða þess er talin vera hrun bankakerfisins og miklir erfiðleikar á innlendum og erlendum mörkuðum. Lífeyrissjóðirnir afskrifuðu hluta af hlutabréfaeign sinni ásamt skuldabréfum lánastofnana og fyrirtækja og færðu hluta fjárfestinga sinna í innlán.

Frett.02.09.2009.Mynd3

Athygli skal vakin á því að skýrslan verður aðeins birt á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins.

Ársreikningabók 2008
Töflur úr ársreikningabók 2008

Nánari upplýsingar veitir Sigurður G. Valgeirsson, sgv@fme.is, sími: 525-2700 og farsími: 840-3861

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica