Fréttir


Viðurlagamál hjá Fjármálaeftirlitinu frá áramótum

14.8.2009

Rannsóknir á hugsanlegum brotum á lögum á fjármálamarkaði eru stór þáttur í starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Sé talið að um brot sé að ræða getur slíkum málum ýmist lokið með stjórnvaldsviðurlögum, sáttum eða að þeim sé vísað til ákæruvalds. Eftirfarandi er yfirlit yfir þau viðurlagamál sem hefur verið lokið hjá Fjármálaeftirlitinu frá áramótum.

Málum vísað til embættis sérstaks saksóknara
Embætti sérstaks saksóknara var sett á fót með sérlögum og tók sérstakur saksóknari til starfa þann 1. febrúar sl. Embættinu er ætlað að rannsaka grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda og í tengslum við þá atburði er leiddu til setningar neyðarlaganna svonefndu í október sl. og eftir atvikum fylgja rannsókn eftir með útgáfu ákæru og saksókn. Embættið leysir af hólmi efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, sem undir eðlilegum kringumstæðum fer með rannsókn sakamála á fjármálamarkaði.

Um miðjan október 2008 hóf Fjármálaeftirlitið að rannsaka hvort brotið hefði verið gegn þeim lögum sem það hefur eftirlit með í aðdraganda og kjölfar hruns viðskiptabankanna þriggja. Meðal annars hafa verið til skoðunar viðskipti innherja með verðbréf, gjaldeyrisviðskipti, markaðssetning og fjárfestingar peningamarkaðssjóða, markaðsmisnotkun og verklag við lánveitingar.  Fjármálaeftirlitið hefur nú vísað 20 málum til embættis sérstaks saksóknara. Fjármálaeftirlitið og embætti sérstaks saksóknara hafa með sér gott samstarf við rannsókn mála.

Málum vísað til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra
Á árinu 2009 hefur Fjármálaeftirlitið vísað einu máli til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, auk þess sem Fjármálaeftirlitið og ríkislögreglustjóri hafa í samstarfi unnið að rannsókn annars máls.

Málum vísað til ríkissaksóknara
Fjármálaeftirlitið hefur vísað fimm málum til ríkissaksóknara vegna meintra brota á þagnarskyldu 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Álagning stjórnvaldssekta
Reynslan sýnir að það hefur takmarkað gildi að refsing í formi sekta eða fangelsis liggi við brotum á fjármálamarkaði. Í framkvæmd er ekki unnt að taka öll slík brot til opinberrar rannsóknar og refsimeðferðar vegna fjölda þeirra og þess kostnaðar sem hlýst af rannsókn, ákæru og störfum dómstóla. Því hefur Fjármálaeftirlitið víðtækar heimildir til að beita stjórnvaldssektum.

Fjármálaeftirlitið hefur lagt  stjórnvaldssektir á fimm aðila frá áramótum. Sektirnar voru á bilinu 1.000.000 – 10.000.000 kr.

Sáttir
Mikill tími og fjármagn fer í að uppfylla kröfur stjórnsýsluréttarins um undirbúning og birtingu stjórnvaldsákvarðana. Á það jafnt við þó að ekki sé efnislegur ágreiningur á milli Fjármálaeftirlitsins og málsaðila. Fjármálaeftirlitinu er því heimilt að ljúka máli aðila með sátt hafi hann gerst brotlegur við ákvæði laga sem veita Fjármálaeftirlitinu heimild til beitingar stjórnvaldssekta. Heimild til sáttar nær þó ekki til meiriháttar brota sem refsiviðurlög liggja við.

Fjármálaeftirlitið hefur lokið 40 málum á árinu með sáttargerð. Þar af eru 36 sáttir vegna þess að útgefendur verðbréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulögðum verðbréfamarkaði hafa ekki uppfyllt þá skyldu sína að upplýsa Fjármálaeftirlitið reglulega um innherja og tengda aðila.

  Viðurlagamál hjá FME frá áramótum

 Vísað til Sérstaks saksóknara  20
 Vísað til efnahagsbrotadeildar  1
 Vísað til Ríkissaksóknara  5
 Stjórnvaldssektir  5
 Sáttir  40
 Alls  71

Nánari upplýsingar til fjölmiðla veitir Sigurður G. Valgeirsson,sgv@fme.is, s: 525-2700 eða gsm 840-3861.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica