Fréttir


Fjármálaeftirlitið rannsakar nú átta meint brot gegn lögum um gjaldeyrismál

12.6.2009

Fjármálaeftirlitið er nú með til rannsóknar átta meint brot gegn lögum um gjaldeyrismál og/eða reglum settum á  grundvelli þeirra. Í gildandi lögum um gjaldeyrismál er Fjármálaeftirlitinu fengið það verkefni að rannsaka slík mál sem því er tilkynnt um. Þau mál sem eru til dæmis til skoðunar varða meint brot gegn reglum Seðlabanka Íslands frá því í desember sl. en þeim er meðal annars ætlað að stöðva tímabundið gjaldeyrisútflæði, sem gæti annars leitt til óhóflegrar gengislækkunar krónunnar.            

Málin sem Fjármálaeftirlitið hefur nú til rannsóknar eru misjafnlega umfangsmikil og eru komin mislangt á veg í rannsóknarferlinu. Fjármálaeftirlitið hefur notið liðsinnis sérfræðinga frá Seðlabanka Íslands sem og annarra sérfræðinga í gjaldeyrismálum við rannsóknir sínar.

Þegar rannsókn Fjármálaeftirlitsins leiðir til þess að grunur um brot er staðfestur getur máli lokið hjá Fjármálaeftirlitinu með stjórnvaldssekt, sátt eða Fjármálaeftirlitið eftir atvikum vísar því til lögreglu, eða sérstaks saksóknara.

Stjórnvaldssektir geta verið lagðar á einstaklinga og lögaðila en þeim getur verið beitt óháð því hvort lögbrot er framið af ásetningi eða gáleysi. Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 10 þús. kr. til 20 millj. kr. en sektir lagðar á lögaðila geta numið frá 50 þús. kr. til 75 millj. kr.

Fjármálaeftirlitið vekur athygli á að öðrum en Seðlabankanum er óheimilt að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi nema hafa til þess heimild í lögum eða samkvæmt ákvæðum í alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að eða fengið til þess leyfi frá Seðlabankanum. Fjármálaeftirlitið telur mikilvægt að árétta að slík gjaldeyrismiðlun er óheimil í öðrum tilvikum.

Nánari upplýsingar til fjölmiðla veitir Sigurður G. Valgeirsson, sgv@fme.is , s. 525 2700 eða farsími 840 3861.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica