Fréttir


Athugasemd við fréttaskýringu Morgunblaðsins um efnahagsreikning nýju bankanna

30.4.2009

Í fréttaskýringu Morgunblaðsins 30. apríl sem birtist undir yfirskriftinni "Bankarnir skreppa saman"  er því haldið fram að efnahagsreikningur nýju bankanna muni verða mun lægri en áætlað. Því til staðfestingar er annars vegar vitnað í bráðabirgða stofnefnahagsreikning bankanna þriggja sem birtur var í nóvember á síðasta ári og hins vegar í minnisblað frá því í janúar, frá ráðgjafafyrirtækinu Oliver Wyman, sem blaðamaður segist hafa undir höndum.

Eins og fram hefur komið í frétt frá Fjármálaeftirlitinu verður samantekt á niðurstöðum verðmats nýju bankanna ekki gerð opinber fyrr en samningar hafa náðst.  Fjármálaeftirlitið getur þó fullyrt að janúartölurnar varðandi heildareignir sem Morgunblaðið birtir endurspegla ekki niðurstöður verðmatsins sem skilað var í endanlegri gerð hinn 22. apríl síðastliðinn. Má í því sambandi benda á þá augljósu staðreynd að á tímabilinu janúar til seinni hluta apríl hafa átt sér stað hreyfingar á efnahag  sem valda því að janúartölur, hvaðan sem þær eru fengnar, segja lítið um stöðu mála í dag.  Þá er ljóst að umræddar janúartölur gefa ekki rétta mynd af stærðarskiptingu bankanna samkvæmt fyrirliggjandi verðmati.

Til viðbótar má benda á að í stofnefnahagsreikningi bankanna frá því í nóvember  er innifalið áformað eiginfjárframlag ríkissjóðs að fjárhæð 385 milljarðar króna. Ekki er ljóst hvort þetta eiginfjárframlag er einnig innifalið í lægri tölunum sem blaðamaður birtir fyrir janúar 2009.

Nánari upplýsingar til fjölmiðla veitir Sigurður G. Valgeirsson, sgv@fme.is , s. 525 2700 eða gsm 840 3861.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica