Fréttir


Staða vátryggingafélaga í kjölfar falls bankanna

7.4.2009

Undanfarnar vikur hefur farið fram á vettvangi fjölmiðla nokkur umræða um stöðu vátryggingafélaga. Borið hefur á því að settar hafa verið fram fullyrðingar sem bera með sér misskilning á sérkennum vátryggingastarfseminnar. Í þessari stuttu grein verður reynt að leiðrétta þennan misskilning með því að svara á almennan hátt tveimur af þeim spurningum sem varpað hefur verið fram. Annars vegar er um að ræða spurninguna „Munu tryggingafélögin ekki fara sömu leið og bankarnir?“ og hins vegar „Eru bótasjóðir tryggingafélaganna ekki tómir?/Hafa eigendur vátryggingafélaganna tæmt bótasjóðina?“.


Munur á áhættu vátryggingafélaga og banka

Varðandi fyrri spurninguna má geta þess að vátryggingastarfsemi er í eðli sínu ólík bankastarfsemi. Bankar standa ávallt frammi fyrir mikilli lausafjáráhættu. Hefðbundna bankastarfsemi þ.e. útlán þarf að fjármagna með innlánum og svokallaðri heildsölufjármögnun og hvort tveggja er mjög viðkvæmt fyrir neikvæðni gagnvart viðkomandi banka. Hefðbundið vátryggingafélag þarf í raun ekki á fjármögnun að halda þar sem starfsemi þess byggist á að greiða fyrir tjón sem vátryggingartakar hafa í sameiningu safnað fyrir með iðgjöldum sínum sem greidd eru fyrirfram. Áhætta í vátryggingarekstri er annars konar, t.d. hættan á því að fjármunir dugi ekki til að greiða stórtjón og hættan á rýrnun fjárfestinga. Vátryggingafélög verja sig fyrrnefndu áhættunni með endurtryggingum en atburðirnir á Íslandi sl. haust urðu ekki til að rýra þá vernd.

Vegna þessa er líklegt að ávallt gefist nokkur tími til að bregðast við versnandi stöðu vátryggingafélaga, t.d. með flutningi stofns til annars félags eða sameiningu. Sem betur fer hafa almenn vátryggingafélög ekki orðið gjaldþrota hér á landi með þeim afleiðingum að þau gætu ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart vátryggingartökum. Stofn þeirra félaga sem hætt hafa starfsemi hefur verið fluttur til annarra vátryggingafélaga og hafa vátryggingartakar ekki orðið fyrir tjóni af slíkri ráðstöfun.


Hugtökin vátryggingaskuld og bótasjóður

Síðari spurningin, um stöðu svokallaðra bótasjóða, tengist einmitt hættunni á rýrnum fjárfestinga. Í einfaldri mynd er efnahagsreikningur vátryggingafélaga þannig samsettur að skuldamegin er eigið fé og svokölluð vátryggingaskuld (sem kölluð var bótasjóður í eldri lögum). Vátryggingaskuldin er tvíþætt, annars vegar skuldbindingar vegna iðgjalda sem greidd eru fyrirfram, þ.e. iðgjaldaskuld (óorðin tjón) og hins vegar skuldbindingar vegna tjóna sem orðið hafa en ekki eru að fullu uppgerð (tjónaskuld). Upphæð vátryggingaskuldar ræðst af mati félagsins á þessum þáttum. Eignamegin eru svo annars vegar eignir sem mæta eiga vátryggingaskuld (sem eru í raun hinn eiginlegi bótasjóður) og svokallaðar frjálsar eignir sem eru umfram vátryggingaskuld. Ef eignir í bótasjóði rýrna getur vátryggingafélagið oftast fært eignir úr frjálsu eignunum. Um fjárfestingar í eignum í bótasjóði gilda strangar reglur, t.d.  takmarkast hámark eigna í hlutabréfum við 40% og eignir í erlendri mynt takmarkast við 20%. Slíkar reglur takmarka ráðstöfun eigenda á þeim eignum sem vátryggingafélagið notar til að mæta vátryggingaskuld.


Ávallt eignir til að mæta skuldbindingum

Í lögum um vátryggingastarfsemi gilda ákveðnar reglur um stöðu eigin fjár, sem m.a. eiga að tryggja að vátryggingafélagið eigi næga fjármuni til að bregðast við óvæntum atburðum. Þessar reglur eiga þar með að tryggja að ekki þurfi að ganga á bótasjóðinn. Í þeim hamförum sem gengið hafa yfir hefur eigið fé vátryggingafélaga eins og annarra fyrirtækja rýrnað töluvert og í sumum tilvikum hefur rýrnunin orðið til að þau uppfylli ekki áðurnefndar reglur um stöðu eigin fjár (gjaldþols). Í samræmi við lög um vátryggingastarfsemi er félögunum í slíkum tilvikum gefinn frestur til að bregðast við með endurskipulagningu. Í þessum tilvikum hafa eignir verið til staðar til að mæta vátryggingaskuldbindingum (í bótasjóði) að mestu eða öllu leyti.

Eins og hér er rakið leiða áföll í vátryggingarekstri fyrst til að eigið fé og þar með hinar svokölluðu frjálsu eignir rýrna. Eignir vantar fyrst í bótasjóð ef eigið fé verður neikvætt eða eignir félagsins uppfylla ekki heimildir um gæði eigna. Fjármálaeftirlitið leggur mikla áherslu á að ávallt séu viðeigandi eignir til staðar til að mæta skuldbindingum og vátryggingafélag gæti ekki haldið starfsleyfi ef séð yrði fram á að það gæti ekki uppfyllt þau skilyrði.

Fjármálaeftirlitið mun í byrjun maí birta upplýsingar um rekstur vátryggingafélaganna á árinu 2008 þar sem áhugasamir geta kynnt sér rekstur og efnahag einstakra félaga.

Eftir Sigurð Frey Jónatansson, tryggingastærðfræðing á vátryggingasviði Fjármálaeftirlitsins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 6. apríl 2009.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica