Fréttir


Lækkun á lágmarksverði í yfirtökutilboði BBR ehf. til hluthafa Exista hf.

6.4.2009

Þann 6. janúar sl. barst Fjármálaeftirlitinu beiðni um að beita heimild samkvæmt 8. mgr. 103. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 (vvl.), og lækka lágmarks verð í yfirtökutilboði BBR ehf. í Exista hf. úr kr. 4,62 per hlut niður í kr. 0,02 per hlut (þ.e. verðið sem BBR ehf. greiddi fyrir hvern hlut í hlutafjárhækkun Exista hf. 8. desember 2008), vegna sérstakra kringumstæðna.

Aðstæður Exista hf. breyttust augljóslega til hins verra í kjölfar hruns Kaupþings banka hf. o.fl. Þá var hlutafé félagsins nær fimmfaldað þann 8. desember þannig að eldri hlutir og verðmæti þeirra þynntust verulega. Þar sem lokað var fyrir viðskipti með fjármálagerninga félagsins frá 2. október og þar til tilboðsskylda stofnaðist, lækkaði opinbert markaðsvirði bréfanna ekki þrátt fyrir þessar miklu breytingar. Síðasta markaðsverð hlutabréfanna áður en tilboðsskylda stofnaðist endurspeglar ekki rétt verðmæti félagsins eins og það var þegar tilboðsskylda stofnaðist, þann 8. desember 2008. Það er því mat Fjármálaeftirlitsins að sérstakar kringumstæður réttlæti að lágmarks verð í yfirtökutilboði í Exista hf. verði lækkað.

Fjármálaeftirlitið hefur fengið sérfræðinga PriceWaterhouseCoopers hf. til þess að framkvæma fyrir sína hönd takmarkað verðmat á Exista hf., eins og félagið var þann 4. desember 2008 (þ.e. sú dagsetning sem verðmat BBR ehf. var miðað við vegna hlutafjáraukningar í Exista hf.). Verðmatið lá fyrir þann 17. mars sl. og er niðurstaðan að skuldir félagsins hafi verið verulega umfram eignir þess.

Þá horfði Fjármálaeftirlitið til verðþróunar með hlutabréf félagsins dagana 9. til 22. desember, þ.e. frá því opnað var að nýju fyrir viðskipti með hlutabréfin í Kauphöllinni og þar til þau voru afskráð, en lítil viðskipti og mikil óvissa kom í veg fyrir eðlilega verðmyndun á þessu tímabili.

Fjármálaeftirlitið hefur því ákveðið, með hliðsjón af framangreindu, að lágmarks verð í yfirtökutilboði BBR ehf. til hluthafa Exista hf. skuli lækkað og vera að lágmarki kr. 0,02 per hlut.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica