Fréttir


Upplýsingarit um MiFID fyrir neytendur - Að fjárfesta í fjármálaafurðum

3.9.2008

Samstarfsnefnd evrópskra eftirlitsaðila á verðbréfamarkaði (CESR) gaf þann 7. mars sl. út upplýsingarit á ensku fyrir neytendur þar sem fjallað er um áhrif nýrrar evrópskrar lagasetningar á fjármálamarkaðinn en MiFID tilskipunin (e. Markets in Financial Instruments Directive) tók gildi 1. nóvember sl. Í innleiðingarreglugerðinni, nr. 994/2007, eru tilgreindar skyldur fjármálafyrirtækja varðandi skýrsluhald, tilkynningar um viðskipti, gagnsæi á markaði og töku fjármálagerninga til viðskipta auk þess sem hugtök er varða MiFID tilskipunina eru skilgreind.

Fjármálaeftirlitið hefur látið þýða upplýsingaritið á íslensku og birtir það á heimasíðu sinni til þæginda og upplýsinga fyrir neytendur. Í bæklingnum er skýrt fyrir neytendum hvað felst í MiFID tilskipuninni, að hverju þarf að huga áður en fjárfesting fer fram, hvernig fyrirmæli viðskiptavina skuli afgreidd, hvaða upplýsinga viðskiptavinurinn getur vænst frá fjármálafyrirtækinu og hvaða kröfur eru gerðar til fjármálafyrirtækisins sem skipt er við.

Markmið MiFID er að vernda viðskiptavini fjármálafyrirtækja. Í tilskipuninni eru meginreglur um viðskiptahætti fjármálafyrirtækja, sem innihalda m.a. reglur um að fjármálafyrirtæki skuli við framkvæmd viðskipta tryggja að viðskiptavinurinn fái bestu mögulegu niðurstöðu miðað við aðstæður, þ.e. reglur um bestu framkvæmd (e. Best execution).  Innleiðing MiFID tilskipunarinnar mun hafa í för með sér að almennir fjárfestar fá meiri upplýsingar frá fjármálafyrirtækjum. Markmiðið með því er að gera þá betur í stakk búna til að taka upplýstar ákvarðanir um fjárfestingar.

Nánar er fjallað um áhrif MiFID á neytendur í meðfylgjandi upplýsingariti.

Rétt er að benda á að ef upp kemur ágreiningur milli viðskiptavina og fjármálafyrirtækja geta þeir fyrrnefndu leitað til Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki.

 

Til baka

Language


Þessi síða notar vefkökur.
Lesa meira

X
Þetta vefsvæði byggir á Eplica