Fréttir


Kynningar Fjármálaeftirlitsins á Solvency II

29.1.2008

Fjármálaeftirlitið (FME) mun á næstu vikum halda fjóra kynningarfundi sem tengjast drögum Framkvæmdastjórnar ESB að nýrri tilskipun vegna vátryggingastarfsemi, svonefndri Solvency II tilskipun. Hver fundur mun hafa ákveðið þema og fjalla um tiltekna þætti er tengjast Solvency II tilskipuninni. Þetta er í samræmi við það markmið að halda vátryggingafélögum vel upplýstum þegar kemur að breyttu starfsumhverfi í kjölfar verulegra breytinga á regluverki.

Þrátt fyrir að ekki sé gert ráð fyrir gildistöku nýrra tilskipunarákvæða fyrr en 31. október 2012 má telja líklegt að væntanlegt lagaumhverfi muni hafa bein eða óbein áhrif á starfsumhverfi vátryggingarfélaganna og ýmsar mikilvægar ákvarðanir FME, s.s. hvað varðar skipulagningu eftirlits með vátryggingafélögum. FME telur því við hæfi að þegar kynning á Solvency II fer fram, sé jafnframt fjallað um tengingu við núgildandi lagaákvæði og leiðbeinandi tilmæli, fyrri umferðir áhrifskannana (QIS: Quantitative Impact Studies) og fyrirkomulag eftirlits, s.s. hvað varðar skýrsluskil.

Fyrsti kynningarfundurinn verður haldinn 5. febrúar nk. Hagsmunaaðilar sem áhuga hafa á að kynna sér væntanlega tilskipun og ýmsar núverandi og fyrirhugaðar áherslur í eftirliti með vátryggingafélögum eru boðaðir til að sækja kynningarfundina.

Senda skal skráningu á fme@fme.is.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica