Fréttir


Góð þátttaka á fundi FME með regluvörðum útgefenda

23.1.2008

Frett.23.01.2008.Regluvardakynning-001-(600-x-450)Þann 22. janúar sl. hélt Fjármálaeftirlitið kynningarfund fyrir regluverði útgefenda. Fundurinn var vel sóttur en um 40 regluverðir og staðgenglar þeirra mættu til fundarins.

Tilgangur fundarins var að fræða regluverði um helstu atriði sem lúta að regluvörslu og upp geta komið í störfum þeirra. Jafnframt var hvatt til fyrirbyggjandi aðgerða með gerð verkferla til þess að minnka líkur á brotum á innherjareglum. Á fundinum var  m.a. fjallað um skilgreiningar á innherjum, framkvæmd við viðskipti innherja, meðferð innherjaupplýsinga, gerð og viðhald innherjalista og viðurlög við brotum á reglum um innherjaviðskipti.

Fjármálaeftirlitið hefur lagt áherslu á góð og jákvæð samskipti við regluverði útgefenda og var fundurinn þáttur í því að styrkja þau samskipti. Fjármálaeftirlitið telur mikilvægt að regluverðir séu vel upplýstir um skyldur þeirra í starfi auk þess að rík meðvitund sé um skyldur innherja.

Hlutverk regluvarðar er m.a. að eiga samskipti við eftirlitsaðila, kynna starfsmönnum og innherjum lög og reglur, útbúa og viðhalda innherjalistum auk þess afgreiða beiðnir innherja um viðskipti með hluti í útgefandanum.

Fjármálaeftirlitið er regluvörðum til ráðgjafar og leiðbeiningar vegna tiltekinna álitaefna en leggur engu að síður áherslu á að regluverðir séu sjálfstæðir í störfum sínum. Mikilvægt er að regluverðir njóti stuðnings yfirstjórnenda og hafi aðgang að öllum þeim gögnum sem þeir þarfnast í störfum sínum.

Glærur Helgu Rutar Eysteinsdóttur

Glærur Hlyns Jónssonar

Glærur Jóns Viðars Þorsteinssonar

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica