Fréttir


OMX tekur að sér að veita þjónustu við miðlægt geymslukerfi á Íslandi

14.1.2008

OMX, leiðandi fyrirtæki í kauphallarstarfsemi, hefur gert samning við Fjármálaeftirlitið um afnot af hugbúnaði og þjónustu fyrir miðlægt geymslukerfi birtingaskyldra upplýsinga á Íslandi. OMX Nordic Exchange á Íslandi mun sjá um þjónustu fyrir miðlæga geymslukerfið með hliðsjón af tilskipun ESB um gagnsæi. Allar birtingaskyldar upplýsingar útgefenda verðbréfa munu, í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti, verða vistaðar í miðlæga geymslukerfinu, sem tekið  verður í notkun 1. febrúar 2008.

Gagnsæistilskipun ESB gekk í gildi í nóvember 2007 á Íslandi. Samkvæmt tilskipuninni ber hverju aðildarríki að reka miðlægt geymslukerfi þar sem útgefendum verðbréfa sem starfa í ESB-löndunum ber að vista allar birtingaskyldar upplýsingar, þar með taldar lýsingar, árshlutaskýrslur, árshluta- og ársreikninga, afkomuviðvaranir og upplýsingar vegna breytinga á eignarhaldi.

Á Íslandi gildir ákvæðið um vistun birtingaskyldra upplýsinga um útgefendur verðbréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á OMX Nordic Exchange Iceland. Ákvæðið gildir jafnframt um þau félög sem staðsett eru á Íslandi sem hafa gefið út verðbréf sem hafa verið tekin til viðskipta í öðru landi innan Evrópska efnahagssvæðisins.
 
Birtingaskyldar upplýsingar skulu vistaðar í geymslukerfið með upprunalegum fylgibréfum og á þeim tungumálum sem þær voru birtar markaðnum. Félög geta annaðhvort notað sérstaka fréttaþjónustu, sem sér um að vista  upplýsingarnar í geymslukerfið eða vistað upplýsingarnar beint í kerfið að því gefnu að það sé gert samtímis opinberri birtingu.

Skylda útgefenda verðbréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði að vista upplýsingar í geymslukerfið leysir útgefendur ekki undan þeirri skyldu að birta upplýsingarnar jafnframt opinberlega þar sem vistun upplýsinga í geymslukerfið jafngildir ekki upplýsingagjöf til markaðarins.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica