Fréttir


Nýjar reglur um opinbera fjárfestingaráðgjöf

7.11.2007

Fjármálaeftirlitið hefur sett reglur um opinbera fjárfestingaráðgjöf sem tekur til aðila sem vinna að eða dreifa slíkri ráðgjöf. Reglurnar eru settar á grundvelli laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Samkvæmt reglum FME skulu nöfn og starfstitlar þeirra aðila er bera ábyrgð á og vinna að ráðgjöfinni koma skýrlega fram auk nafns þess lögaðila sem ber ábyrgð á gerð hennar. Jónas Fr. Jónsson, forstjóri FME segir að reglurnar eigi  að tryggja skýra og rétta framsetningu opinberrar fjárfestingaráðgjafar og gera viðskiptamönnum kleift að kynna sér röksemdafærslur greiningaraðila og þær forsendur liggja að baki ráðgjöfinni.

Í framsetningu opinberrar fjárfestingaráðgjafar skal gæta að því að staðreyndir séu skýrt aðgreindar frá túlkunum, mati, skoðunum eða öðrum matskenndum upplýsingum. Þá skal þess gætt að allar heimildir séu áreiðanlegar og að framreikningar, spár og markgengi séu skýrlega tilgreind sem og þær ályktanir sem framangreint byggist á. Þá segir í reglum FME að sé einungis birt samantekt úr greiningu skal koma skýrt fram hvar fjárfestingarráðgjöfin er aðgengileg í heild sinni. 

Hagsmunaárekstrar
Greinandi skal gæta þess að í opinberri fjárfestingaráðgjöf séu tilgreind öll þau hagsmunatengsl og aðstæður sem ætla má að geti haft áhrif á hlutleysi ráðgjafarinnar. Á þetta einkum við þegar greinendur eða tengdir aðilar eiga verulegra hagsmuna að gæta varðandi þá fjármálagerninga er ráðgjöfin lýtur að.  

Sjálfstæðir greinendur, fjármálafyrirtæki, tengdir lögaðilar og aðrir sem hafa  fjárfestingaráðgjöf að meginstarfi  skulu gæta þess að í ráðgjöf þeirra komi fram ef veruleg hlutabréfaeign er til staðar á milli greinanda og tengdra lögaðila annarsvegar og útgefandans hinsvegar. Veruleg hlutabréfaeign telst a.m.k. vera til staðar þegar hlutafé yfir 5% af heildarhlutafé útgefanda er í eigu greinanda eða tengdra lögaðila eða ef útgefandi á yfir 5% af heildarhlutafé greinanda eða lögaðilum tengdum honum. Það sama á við ef verulegir fjárhagslegir hagsmunir kunna að vera til staðar á milli greinanda og tengdra lögaðila og útgefanda.

Dreifing fjárfestingaráðgjafar til þriðja aðila.
Ef aðili dreifir fjárfestingaráðgjöf á eigin ábyrgð sem gerð er af öðrum aðila (greinanda) skal tilgreina nöfn beggja aðila á skýran og áberandi hátt. Dreifi aðili efnislega breyttri fjárfestingaráðgjöf skal hafa skriflegar reglur settar af yfirstjórn sem tryggja að móttakendur upplýsinganna fái leiðbeiningar um hvar hægt sé að nálgast greininguna sjálfa og upplýsingar greinanda um hagsmuni sína eða hagsmunaárekstra, að því gefnu að þær upplýsingar séu opinberar.

Forsendur ráðgjafar séu skýrar
Jónas Fr. Jónsson, forstjóri FME, segir reglurnar byggja á tilskipun Evrópusambandsins. “Með reglunum er stuðlað að því að lesendur fyrirtækja- og fjárfestingagreininga geti kynnt sér forsendur fjárfestingaráðgjafar og jafnframt metið hvort slík hagsmunatengsl séu til staðar sem þau geti haft áhrif á hlutleysi og niðurstöður ráðgjafarinnar. Markmiðið er að efla gegnsæi og trúverðugleika fjárfestingaráðgjafar sem ætti að vera fjárfestum til hagsbóta”.

Sjá nánar: Reglur um opinbera fjárfestingaráðgjöf

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica