Fréttir


FME: Eftirlit í alþjóðlegu umhverfi

23.10.2007

Mikill og ör vöxtur íslenskra fjármálafyrirtækja á alþjóðlegum mörkuðum hefur umbreytt íslenskum fjármálamarkaði á stuttum tíma.  Samkvæmt hálfsársuppgjörum viðskiptabankanna stafaði um 54% tekna  íslensku fjármálafyrirtækjanna erlendis frá. Í árslok 2006 mátti rekja 45% heildareigna bankanna til erlendra dótturfélaga þeirra og um helmingur starfsmanna íslensku viðskiptabankanna störfuðu í dótturfélögum eða útibúum bankanna erlendis. Ljóst er, að umsvif íslenskra fjármálafyrirtækja erlendis hafa vaxið enn frekar á þessu ári.

Þessi auknu umsvif íslenskra fjármálafyrirtækja á erlendum vettvangi hefur töluverð áhrif á starfsemi Fjármálaeftirlitsins (FME) og hefur FME því  mótað stefnu um starfsemi sína  í alþjóðlegu umhverfi.

Útrásarleiðir íslenskra fjármálafyrirtækja
Útrás íslensku bankanna innan Evrópska efnahagssvæðisins byggir á þeim starfsleyfum sem FME gefur út á Íslandi. Evrópskar eftirlitsstofnanir treysta þannig á skilvirkni og sjálfstæði íslenska eftirlitsaðilans og íslensku bankarnir þurfa ekki að sækja um sérstakt leyfi í viðkomandi landi.  Þegar um útrás til landa utan EES er að ræða þurfa fyrirtækin yfirleitt að sækja um sérstakt leyfi hjá eftirlitsaðila í viðkomandi ríki. Engu að síður leita erlendir eftirlitsaðilar nær undantekningarlaust eftir upplýsingum hjá FME  um starfsemi og framferði viðkomandi fyrirtækja á Íslandi. Íslensku bankarnir hafa hingað til valið þrjár meginleiðir í útrásinni, þ.e. stofnun útibúa, kaup á dótturfélögum eða opnun umboðsskrifstofa. Þessar þrjár leiðir hafa mismunandi þýðingu varðandi eftirlitshlutverk FME.

56 starfseiningar í 21 landi
Í dag hafa íslensk fjármálafyrirtæki þegar tilkynnt til FME um 56 starfseiningar í 21 landi. Í árslok 2005 voru starfseiningar íslensku fyrirtækjanna  26 í 12 löndum og hefur starfseiningum þannig fjölgað um helming á innan við tveimur árum. Þá eru fleiri erlendar starfseiningar í burðarliðnum.

 

 Árslok 2005

 Október 2007

 Dótturfélög

 21

31 

 Útibú

 4

21 

 Umboðsskrifstofur

 1

 Fjöldi starfseininga alls

 26

56 

 Fjöldi ríkja þar sem starfsemi er stunduð

 12

21 



Guðbjörg Bjarnadóttir, sviðstjóri á lánasviði FME segir að nokkuð hafi færst í vöxt að íslensku bankarnir kjósi að stofna útibú á erlendum mörkuðum. ,,Meginástæður þessa eru m.a. þær að reglurnar um stofnun útibúa á EES svæðinu eru skýrar og regluverkið samhæft. Þá hafa bankarnir öðlast meiri reynslu í rekstri starfseininga erlendis og samþætting í stjórnun og rekstri er einfaldari þegar stofnað er útibú en til dæmis þegar um er ræða kaup á erlendu dótturfélagi. Þá skiptir einnig miklu máli að þegar um starfsemi útibúa er að ræða þá hvílir eftirlitsskyldan á herðum heimaeftirlitsins, það er að segja FME í tilviki íslensku bankanna”, segir Guðbjörg. Hún bendir á að útibúavæðing íslensku bankanna erlendis hafi töluverð áhrif á starfsemi FME þar sem um er að ræða beint eftirlit með rekstrareiningum í öðrum löndum.

Stefna FME í alþjóðlegu umhverfi
Guðbjörg segir að aukin umsvif íslenskra fjármálafyrirtækja á alþjóðlegum vettvangi leggi auknar skyldur á herðar FME, auki vinnuálag og ferðalög. ,,Til að bregðast við þessu hefur verið mótuð stefna um alþjóðlega starfsemi Fjármálaeftirlitsins”.   Meginþættir þessarar stefnumótunar eru eftirfarandi:

Útibú:
Útibú íslenskra fjármálafyrirtækja erlendis eru undir eftirliti FME og er það markmið FME að gera úttektir á starfsemi stærri útibúa á tveggja ára fresti. Þegar um minni útibú er að ræða er þörfin á úttektarheimsóknum metin árlega, þó skulu þau ekki heimsótt sjaldnar en á fjögurra ára fresti.

Dótturfélög:
Erlend dótturfélög eru undir beinu eftirliti eftirlitsaðila  gistiríkisins en FME fer með eftirlit með starfsemi þeirra á samstæðugrunni. FME stefnir að því að taka þátt í eftirlitsheimsóknum erlendra eftirlitsstofnana til dótturfélaga ef eignarhlutur nemur 10% af heildareignum heildar eignum samstæðu. Þá stefnir FME að því að heimsækja þessi dótturfélög á tveggja ára fresti til þess að fá upplýsingar og öðlast yfirsýn yfir rekstur þeirra.

Upplýsingar
Skjót og skilvirk upplýsingagjöf fjármálafyrirtækja er einn af lykilþáttum þess að FME geti haldið úti markvissri eftirlitsstarfsemi. FME mun frá árslokum 2007 óska eftir sérstökum skýrslum um rekstur erlendra dótturfélaga og útibúa íslensku fjármálafyrirtækjanna.

Samstarf með erlendum systurstofnunum
FME mun funda reglulega með eftirlitsstofnunum í þeim ríkjum þar sem íslensk fyrirtæki eru með umsvif. Þá stefnir FME að gerð samstarfssamninga við eftirlitsaðila í ríkjum utan EES svæðisins í takt við aukna útrás íslenskra fjármálafyrirtækja inn á nýja markaði.

Markvisst eftirlit lykilatriði
Guðbjörg segir þessa stefnu FME vera mikilvægan hlekk í almennri stefnumótun stofnunarinnar. ,,Það er lykilatriði fyrir FME að geta sinnt eftirlitsskyldum sínum erlendis á markvissan hátt. Fjármálaeftirlitið starfar, líkt og bankarnir, í alþjóðlegu umhverfi. Hér starfar vel menntað og metnaðarfullt fólk, margt hvert með starfsreynslu og menntun að utan. Það er mikilvægt fyrir okkur að geta veitt þeirri reynslu og þekkingu í skilvirkan farveg og ég viss um að þessi stefnumótun FME um starfsemi í alþjóðlegu umhverfi stuðlar að því”.


 

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica