Fréttir


Túlkun um verð í yfirtökutilboði

4.10.2007

Fjármálaeftirlitið hefur gefið út túlkun sína á 2. mgr. 40. gr. laga um verðbréfaviðskipti um verð í yfirtökutilboði.

Túlkun FME er svohljóðandi:
“Verð það sem sett er fram í yfirtökutilboði skv. 37. gr. nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti skal a.m.k. svara til hæsta verðs sem tilboðsgjafi eða aðilar sem hann er í samstarfi við hafa greitt fyrir hluti sem þeir hafa eignast í viðkomandi félagi síðustu sex mánuði áður en tilboð var sett fram. Tilboðsverð skal þó að lágmarki vera jafnhátt og síðasta viðskiptaverð hluta í viðkomandi félagi daginn áður en tilboðsskylda myndaðist eða tilkynnt var um fyrirhugað tilboð.”

Verð sem greiða skal
Fjármálaeftirlitið telur að í 2. mgr. 40. gr. laga um verðbréfaviðskipti felist þrjár mismunandi aðferðir við að komast að niðurstöðu um verð, en tilboðsverð skuli ávallt byggja á þeirri aðferð sem gefur hæsta verð.   Leiðir þetta af orðum laganna um að verðið skuli nema a.m.k. hæsta verði á ákveðnu tímabili en þó vera að lágmarki jafnhátt síðasta viðskiptaverði á ákveðnum tíma.  Einnig samræmist þessi skýring vel þeim almennum sjónarmiðum um þann tilgang yfirtökureglna að vernda minnihluta hluthafa í félögum sem eru yfirtekin á þann hátt að hluthafar geti selt hluti sína á sanngjörnu verði.

Fjármálaeftirlitið telur að skilja verði orð 2. ml. 2. mgr. 40. gr. laganna um viðskiptaverð hluta í viðkomandi félagi daginn áður en tilboðsskylda myndaðist eða tilkynnt var um fyrirhugað tilboð þannig, að átt sé við öll viðskipti með viðkomandi hluti en ekki einungis verð í viðskiptum tilboðsgjafa eða samstarfsaðila.

Hlynur Jónsson, sviðsstjóri verðbréfasviðs FME segir að fyrirspurnir hafi borist um það hvaða verð skuli sett fram í yfirtökutilboði. “Þó svo að verðbréfaviðskiptalög séu  nokkuð skýr hvað varðar verðlagningu í yfirtökutilboðum ákvað FME að eyða vafa og gera reglurnar aðgengilegri með þessari túlkun og þeim skýringardæmum sem þar er að finna”, segir Hlynur.

Túlkun FME í heild sinni.

 

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica