Fréttir


Samnorrænni viðlagaæfingu fjármálayfirvalda lokið

24.9.2007

Lokið er sameiginlegri viðlagaæfingu fjármálayfirvalda á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum en Fjármálaeftirlitið (FME), Seðlabanki Íslands og fjármálaráðuneytið tóku þátt í æfingunni fyrir Íslands hönd.

Tilgangurinn með æfingunni var að kanna viðbragðshæfni yfirvalda í þessum ríkjum við hugsanlegum áföllum hjá fjármálafyrirtækjum með starfsemi yfir landamæri. Megináhersla var lögð á samhæfingu í ákvörðunartöku á milli ofangreindra stofnana í ríkjunum sem um ræðir, þar sem fjármálafyrirtæki í þessum löndum stunda mikil viðskipti sín á milli.

Viðlagaæfingin er tilkomin vegna eindregins vilja þeirra aðila sem að henni standa til að kanna samstarfs- og samhæfingarferla stofnananna.  Æfingin hefur verið í undirbúningi í meira en ár og var sagt frá henni á heimasíðu FME þann 18. janúar sl. Því ber ekki að túlka tímasetningu hennar og viðfangsefni sem vísbendingu um breytt mat yfirvalda á fjármálastöðugleika í löndunum sem um ræðir.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica