Fréttir


Aukning í málskotum til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum

9.7.2007

Nokkur aukning varð á málskotum til Úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum á milli ársins 2005 og 2006. Nefndin er vistuð hjá Fjármálaeftirlitinu (FME) og meginhlutverk hennar er að fjalla um ágreining um bótaskyldu milli neytenda og vátryggingafélaga. Nefndin fjallar um ágreining um bótafjárhæð að fengnu samþykki deiluaðila.

Fjármálaeftirlitið hefur tekið saman yfirlit yfir starfsemi Úrskurðarnefndarinnar þar sem fjallað er um skipan, verklag og niðurstöður nefndarinnar. Þá hafa einnig verið teknar saman tölulegar upplýsingar um fjölda málskota og breytinga málskotsaðila í vil.

Meginástæður aukningar á málskotum árið 2006 má rekja til nýrra laga um vátryggingasamninga og þess að ekki þarf lengur að fara fyrst með mál fyrir tjónanefnd vátryggingarfélaganna.  Áberandi aukning varð í málskotum annarra vátrygginga en ökutækjatrygginga - t.d. persónutrygginga, málskostnaðartrygginga og ferðatrygginga, heimilis/ fjölskyldu- og/eða húseigendatrygginga.

Þá var aukning í málskotum vegna ábyrgðartryggingar atvinnureksturs þar sem t.d. deilt er um hvort skaðabótaskylda hafi stofnast eða t.d. hvort málskotsaðili/tjónþoli skuli bera hluta tjóns síns vegna eigin sakar. Einnig er áberandi aukning í málum sem varða upplýsingaskyldu vátryggingartaka/vátryggðs við töku persónutrygginga.

Almenn ánægja með störf nefndarinnar
Rúnar Guðmundsson, formaður nefndarinnar, segir að reynt hafi á ýmsa þætti í málskotunum, m.a. skilgreiningu á hugtakinu slys, skilgreiningu á því hvort um innbrot hafi verið að ræða, áhrif ölvunar á réttarstöðu aðila og  gildissvið vátrygginga. Rúnar segist búast við því að í framtíðinni muni í auknum mæli reyna á ákvæði laga um vátryggingarsamninga og þá auknu neytendavernd sem þar er kveðið á um. “Úrskurðarnefndin tekur ákvarðanir sínar að vel athuguðu máli og gættum andmælarétti, sem er forsenda fyrir farsælu starfi af þessu tagi. Ég hef ekki orðið var við annað en almenn að ánægja ríki með starfsemi Úrskurðarnefndarinnar”, segir Rúnar.

Yfirlit yfir starfsemi Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum.
 

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica