Fréttir


Tilboðsverð Eyjamanna ehf. í Vinnslustöðina hf.

2.7.2007

Nýverið barst Fjármálaeftirlitinu beiðni frá hluthafa í Vinnslustöðinni hf. um að það tæki tilboðsverð Eyjamanna ehf. í Vinnslustöðina hf. til skoðunar og kannaði hvort forsendur væru fyrir því að breyta tilboðsverðinu á grundvelli heimildar eftirlitsins í 8. mgr. 40. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003 (vvl.).

Í 8. mgr. 40. gr. vvl. er Fjármálaeftirlitinu veitt heimild til að breyta tilboðsverði ef um sérstakar kringumstæður er að ræða. Þar segir:

Fjármálaeftirlitið getur breytt tilboðsverði, til hækkunar eða lækkunar, ef um sérstakar kringumstæður er að ræða og reglunni um jafnræði hluthafa í 1. mgr. er fylgt. […] Allar ákvarðanir varðandi breytingar á tilboðsverði og undanþágur skulu vera rökstuddar og birtar opinberlega.”

Ströng skilyrði verða að gilda um allar undanþágur eins og kemur skýrt fram í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð sem fylgdi frumvarpi því er varð að lögum nr. 31/2005, sem breyttu verðbréfaviðskiptalögum nr. 33/2003. Almennt má því segja að nokkuð mikið þurfi til að koma svo Fjármálaeftirlitið grípi til þessarar heimildar. Í áðurnefndri greinargerð eru talin upp í dæmaskyni nokkur tilvik sem gætu heimilað Fjármálaeftirlitinu að grípa til þessa úrræðis. Fjármálaeftirlitið getur ekki séð að slíkar aðstæður séu fyrir hendi í umræddu máli.

Í yfirtökutilboði Eyjamanna ehf. frá 31. maí sl. í alla hluti í Vinnslustöðinni hf. er boðið kr. 4,60 pr. hlut. Er það verð í samræmi við viðskiptaverð daginn fyrir þann tíma er tilboðsskylda myndaðist, í samræmi við skilyrði 2. mgr. 40. gr. vvl. Þá er verðið í samræmi við meðalmarkaðsverð síðustu sex mánaða og í samræmi við verðmatsgreiningu Kaupþings banka hf. sem birt var 30. mars sl. og sjóðstreymisgreiningu Glitnis banka hf. sem birt var 21. mars sl.

Með vísan til framangreinds var það niðurstaða Fjármálaeftirlitsins að ekki væru forsendur til frekari aðgerða af þess hálfu að svo stöddu. Fjármálaeftirlitið fylgist áfram með gangi mála hjá Vinnslustöðinni hf. og kann að endurskoða afstöðu sína, þyki ástæða til. Hafa verður í huga að hluthöfum er vitaskuld heimilt að hafna tilboðinu, telji þeir það óhagstætt.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica