Fréttir


FME: Leiðbeinandi tilmæli um starfshætti vátryggingasölumanna

23.5.2007

Brýnt er að ráðgjöf og upplýsingagjöf vátryggingasölumanna sé í samræmi við þarfir viðskiptavinarins. Þetta er meðal þess sem kemur fram í leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins (FME) nr. 3/2007 sem gefin eru út samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi (nr.87/1998).

Í tilmælum FME er m.a. kveðið á um að vátryggingasölumaður skuli einungis veita ráðgjöf á þeim sviðum vátrygginga sem hann hefur nægilega þekkingu á, ella skuli hann leita aðstoðar eða vísa viðskiptavinum til annars aðila. Einnig er lögð áhersla á að sölumaður vátrygginga skilgreini þarfir og kröfur viðskiptavinarins með tilheyrandi upplýsingasöfnun. Þá skulu sölumenn gæta þess að fara ekki með ónákvæmar og ósanngjarnar fullyrðingar í garð keppinauta eða annarra eftirlitsskyldra aðila þegar kemur að samanburði á vátryggingakjörum.

Rík upplýsingaskylda
Í tilmælum FME er einnig fjallað um þá ríku upplýsingaskyldu sem hvílir á sölumönnum vátrygginga. Þeir skulu m.a. upplýsa viðskiptavini um mikilvægustu atriði þeirra vátryggingaskilmála er um vátrygginguna gilda, helstu takmarkanir og undantekningar sem um vátrygginguna gilda og þær reglur sem orðið geta til lækkunar eða hækkunar iðgjalds.  Þá ber vátryggingasölumanni að skýra viðskiptavinum frá þeim ástæðum sem liggja að baki ráðleggingum hans og skal sá rökstuðningur taka mið af eðli þess vátryggingasamnings sem mælt er með.

Heilsufarsupplýsingar
Á meðan vátryggingafélag hefur ekki samþykkt að veita vátryggingu getur það óskað eftir upplýsingum sem hafa þýðingu fyrir mat þess á áhættunni. Vátryggingafélag skal gæta þess að beiðni þess um upplýsingar þ.á m. heilsufarsspurningar séu skýrar þannig að aðilar þurfi ekki að vera í vafa um efni þeirra og mögulega þýðingu. Heilsufarsupplýsingar eru á ábyrgð vátryggingataka og eftir atvikum hinna vátryggðu. Þeir skulu, eftir bestu vitund, veita rétt og tæmandi svör við spurningum vátryggingafélagsins um heilsufar. Mikilvægt er að vátryggingataka og eftir atvikum vátryggðum sé gerð grein fyrir því að þeir skulu að eigin frumkvæði veita upplýsingar um sérstök atvik sem þeir vita, eða mega vita, að hafa verulega þýðingu fyrir mat félagsins á áhættu.

Söluferlið sé skýrt og gegnsætt.
Rúnar Guðmundsson, sviðstjóri á vátryggingasviði FME segir að drög að tilmælunum  hafi verið send eftirlitsaðilum til umsagnar í apríl og tekið hafi verið tillit til nokkurra athugasemda sem bárust. “Vátryggingarsamningar eru oft á tíðum flóknir í eðli sínu og því getur reynst erfitt fyrir viðskiptavini vátryggingafélaga að átta sig á ákvæðum þeirra. Þess vegna teljum við hjá FME mikilvægt að reyna að tryggja sem best að söluferlið hjá söluaðilum vátrygginga sé skýrt og gegnsætt og að upplýsingagjöfin taki mið að þörfum viðskiptavinarins”, segir Rúnar.

Tilmælin má nálgast hér.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica