Fréttir


Kynningar FME vegna QIS3: Fundir um vátryggingaskuld og vátryggingaáhættu

14.5.2007

Fjármálaeftirlitið (FME) hélt fundi um mat á vátryggingaskuld og vátryggingaáhættu í QIS3 23. apríl og 7. maí sl. Fundirnir voru liðir í kynningu FME á einstökum atriðum í QIS3 sem ætlað er að kanna áhrif væntanlegs Solvency II gjaldþolsstaðals á vátryggingafélög.

Fyrri fundurinn var ætlaður líftryggingafélögum. Fjallað var um eftirfarandi atriði:

Hvernig finna ætti besta mat líftryggingaskuldar með núvirðingu væntanlegs greiðsluflæðis af líftryggingasamningum.

  1. Að finna ætti svokallað áhættuálag (risk margin) á líftryggingaskuld með fjármagnskostnaðaraðferð (cost of capital method) og fjallað um hugmyndafræði þeirrar aðferðar.
  2.  Mat á gjaldþolskröfu (SCR, Solvency Capital Requirement) vegna líftryggingaáhættu. Gert er ráð fyrir að slíkt mat fari fram með áfallaprófum en smærri félögum gefst kostur á að meta kröfuna með margföldunaraðferð (factor based method). Þar sem íslensk líftryggingafélög hafa ekki tekið þátt í fyrri umferðum QIS mælir FME með að sá valkostur sé nýttur.
  3. Mat á lágmarksgjaldþolskröfu (MCR, Minimum Capital Requirement) vegna líftryggingaáhættu. Fjallað var um hvaða fjárhæðir þarf að nota sem inntak slíks útreiknings.


Síðari fundurinn var ætlaður skaðatryggingafélögum og fjallað þar um eftirfarandi atriði:

  1. Hvernig finna eigi besta mat iðgjaldaskuldar og svokallað liability adequacy test.
  2. Hvernig finna eigi besta mat tjónaskuldar, t.d. með svokallaðri chain-ladder aðferð.
  3. Fjallað var um fjármagnskostnaðaraðferðina og hvernig félög (bæði líftryggingafélög og skaðatryggingafélög) geta einfaldað útreikningana með eigin spá um þróun besta mats í stað þess að spá fyrir um þróun SCR.
  4. Mat á SCR vegna skaðatryggingaáhættu.
    a) Til að meta iðgjaldaáhættu og tjónaskuldaráhættu (premium and reserve risk) þarf að fylla inn upplýsingar um iðgjöld og tjónshlutföll á síðustu 15 árum í hverri vátryggingagrein. FME mælir með að eingöngu þau sögulegu ár sem talin eru gefa raunhæft mat séu notuð.
    b) Mat á stórtjónaáhættu (catastrophe risk) fer fram með áfallaprófum eða með því að meta markaðshlutdeild félagsins í einu stórtjóni. Nokkur ríki hafa gefið upp stórtjón sem talin eru hafa líkleg áhrif á öll skaðatryggingafélög á viðkomandi heimamarkaði. Til skoðunar er hjá FME hvort meta eigi hvert heildartjón vegna stórs storms (t.d. í líkingu við óveðrið 1991) hefði í dag. Vátryggingafélögin eru þó hvött til að leggja eigið mat á líkleg stjórtjón og áhrif á fjárhagsstöðu þeirra. Félögin þurfa jafnframt að leggja mat á líkleg áhrif alþjóðlegra tjóna sem gefin eru upp í leiðbeiningum vegna QIS3.
  5. Mat á MCR vegna skaðatryggingaáhættu byggist á sömu upplýsingum og gefnar eru upp vegna iðgjalda- og tjónaskuldaráhættu í SCR og reiknast því sjálfkrafa út.

Næsti fundur vegna QIS3 fer fram mánudaginn 14. maí og fjallar um útreikning á gjaldþolskröfum fyrir vátryggingafélög í samstæðum.


 

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica