Fréttir


Lífeyrissjóðirnir geta verið samviska fjármálalífsins

10.5.2007

“Lífeyrissjóðirnir eru öflugir þátttakendur á litlum innlendum fjármagnsmarkaði og geta haft töluverð áhrif á markaðinn, bæði á verð og hegðun markaðarins”. Þetta var meðal þess sem kom fram í ræðu Jónasar Fr. Jónssonar, forstjóra FME, á aðalfundi Landssamtaka Lífeyrissjóða sem haldinn var í dag. Jónas sagði það skoðun sína að þar sem lífeyrissjóðirnir væru sterkir fagfjárfestar á íslenskum hlutabréfamarkaði gegndu þeir forystuhlutverki varðandi kröfur um góða stjórnarhætti í þeim fyrirtækjum sem þeir fjárfesta. Hann sagði sjóðirnir ættu þannig að vera eins konar samviska íslensks fjármálamarkaðar, það væri rökrétt með tilliti til þeirra almannahagsmuna sem þeim væri ætlað að tryggja, þeirra viðhorf ættu að ráðast af langtímahagsmunum frekar en skammtímagróða.

Í ræðu sinni fjallaði Jónas almennt um eftirlit FME með starfsemi lífeyrissjóðanna og sagði ljóst að lífeyrissjóðirnir hefðu ekki farið varhluta af þeim breytingum sem orðið hafa á fjármálamarkaði á undanförnum árum. Þetta ætti við um sameiningar lífeyrissjóða, en síðan 1998 hafa um þrjár sameiningar átt sér stað að meðaltali á ári. Sjóðirnir eru 40 í dag en ætla má að þeir verði 37 um mitt ár. Um 75% eigna lífeyrissjóðanna er í vörslu 8 stærstu sjóðanna.

Jónas fjallaði einnig um rýmkun fjárfestingarheimilda lífeyrissjóða og benti á að rýmkuðum heimildum fylgdi aukin ábyrgð og rík krafa um skilvirkt innra eftirlit og áhættustýringu.

Ræðu Jónasar má nálgast hér.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica