Fréttir


Samstarfssamningur FME og saksóknara efnahagsbrota

13.4.2007

Frett.13.04.2007.Mynd1_1600861621325Fjármálaeftirlitið og saksóknari efnahagsbrota undirrituðu í dag samstarfssamning varðandi samvinnu vegna aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Jónas Fr. Jónsson, forstjóri FME og Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota undirrituðu samninginn. Markmið samningsins er að auka samvinnu FME og saksóknara efnahagsbrota á sviði upplýsingagjafar, kynninga og fræðslu. Sérstök áhersla er lögð á að skiptast á upplýsingum sem aflað er í alþjóðasamstarfi. Samkvæmt samningnum mun FME tilkynna saksóknara efnahagsbrota um vitneskju sem það kann að öðlast um viðskipti sem tengjast peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka.  Samkvæmt samningnum skal saksóknari efnahagsbrota senda FME ársfjórðungslega upplýsingar um fjölda og tegundir tilkynninga sem berast vegna gruns um peningaþvætti.

Jónas Fr. Jónsson, forstjóri FME, segist ánægður með samninginn. “Með samningnum er verið að treysta enn frekar umgjörð eftirlits með peningaþvætti á íslenskum fjármálamarkaði. Auk hefðbundins eftirlits mun FME í framtíðinni einnig greina þær tilkynningar sem saksóknara efnahagsbrota berast frá eftirlitsskyldum aðilum og bregðast við ef við teljum að frávik krefjist nánari skýringa”, segir Jónas.

Samstarfssamningur FME og saksóknara efnahagsbrota

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica