Fréttir


FME: Úttekt á reiknigrundvelli líftrygginga

13.4.2007

Fjármálaeftirlitið hefur kannað forsendur reiknigrundvallar í líftrygginga hjá fjórum innlendum líftryggingafélögum. Könnunin fór fram með spurningum og heimsóknum til félaganna, auk athugunar á reglubundnum innsendum gögnum.

FME telur ekki ástæðu til að gera athugasemdir við reiknigrundvöllin og fellst á röksemdir félaganna fyrir því að nú séu ekki réttar aðstæður til heildarendurskoðunar. FME telur hins vegar ástæðu til að gera grein fyrir helstu niðurstöðum athugunarinnar hér og vill með því leggja áherslu á að líftryggingafélögin fylgist með aðstæðum og lækki iðgjöld, gefist til þess tilefni.

Þau atriði sem FME beinir til líftryggingafélaganna að þau taki til skoðunar, eftir atvikum öll eða sum þeirra, eru eftirfarandi:

  1. Líftryggingafélög skulu leitast við að breyta iðgjaldaskrám eins fljótt og hægt er eftir að nýjar forsendur Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga hafa verið samþykktar og gefnar út.
  2. Tryggingastærðfræðingar félaganna skulu árlega gera grein fyrir samanburði á raunverulegri þróun dauðsfalla í líftryggingastofni við forsendur félagsins um dánarlíkur.
  3. Kjósi líftryggingafélag að úthluta ágóðahlutdeild (bónus) í kjölfar breytinga á forsendum fremur en að lækka iðgjöldin skulu reglur um slíkt vera skýrar og gegnsæjar. Árlega skal tryggingastærðfræðingur gera FME grein fyrir hvernig reglum um ágóðaúthlutun hefur verið beitt. Gæta skal þess að slík ágóðahlutdeild sé greind frá afsláttarkjörum sem viðskiptavinum bjóðast.
  4. Líftryggingafélög skulu árlega gera FME grein fyrir hvernig þau hyggjast takmarka brottfall samninga og skal tryggingastærðfræðingur leggja mat á raunhæft markmið um eðlilegt brottfallshlutfall, hafi því ekki verið náð, og hvaða áhrif brottfallið hefur á mat iðgjalda.
  5. Tryggingastærðfræðingar félaganna skulu árlega gera FME grein fyrir samanburði á forsendum um sölukostnað í iðgjaldagrundvelli við raunverulegan sölukostnað.

Rúnar Guðmundsson, sviðsstjóri vátryggingasviðs FME segir að samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi beri FME að fylgjast með iðgjaldagrundvelli vátrygginga með það fyrir augum að iðgjöld, sem í boði eru hér á landi, séu sanngjörn í garð vátryggingataka og í samræmi við þá áhættu sem í vátryggingum felst og eðlilegan rekstrarkostnað. ,,Þessi könnun er hluti af reglubundnum úttektum vátryggingasviðs á starfsemi og starfsháttum vátryggingafélaganna. Svona úttektir, þar sem ákveðnir þættir í starfsemi vátryggingafélaga eru teknir sérstaklega til skoðunar, er mikilvægur þáttur í eftirlitsstarfi FME. Þannig fæst betri yfirsýn yfir forsendur og grundvöll þeirra viðskiptakjara sem vátryggingafélögin bjóða viðskiptavinum sínum”, segir Rúnar.

Úttektina FME má nálgast hér.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica