Fréttir


Rafræn skýrsluskil til FME ganga vel

10.4.2007

Rafræn skýrsluskil eftirlitsskyldra aðila til Fjármálaeftirlitsins hafa gengið vel það sem af er ári. Fjármálaeftirlitið hefur markað metnaðarfulla upplýsingatæknistefnu sem hefur það að meginmarkmiði að auka skilvirkni og gæði við móttöku og úrvinnslu upplýsinga og gagna frá eftirlitsskyldum aðilum. Einn grunnþátturinn í stefnu FME er rafvæðing reglubundinna skýrsluskila frá eftirlitskyldum aðilum, en FME tekur við um 4000 skýrslum á ári. Tilgangurinn með verkefninu er að auka skilvirkni og gæði í úrvinnslu upplýsinga frá eftirlitsskyldum aðilum. Frá og með ársbyrjun 2007 urðu öll slík skýrsluskil gerð rafræn, þar sem eftirlitsskyldir aðilar fylla út í sérstöku skýrsluskilakerfi og senda gögnin yfir netið í gegnum örugga upplýsingagátt.

Mikill ávinningur
Töluverður ávinningur er af rafvæðingu skýrsluskila til FME. Jónas Fr. Jónsson, forstjóri FME segir að í ár sparist um 1000 tímar sem annars hafa farið í skráningu, flokkun og utanumhald vegna skýrsluskila. ,,Þetta er mjög mikilvægur áfangi fyrir okkur þar sem við þurfum sífellt að forgangsraða verkefnum okkar og leggja áherslu á réttu hlutina. Þá hefur nýja skýrsluskilakerfið einnig stórlega bætt aðgengi starfsmanna FME að nauðsynlegum upplýsingum”, segir Jónas. Hann segir að næsta skref sé að fullþróa úrvinnslukerfi þannig að auðvelt verði að kalla fram upplýsingar og gögn um helstu kennitölur og áhættuþætti úr gagnagrunnum FME. ,, Það er ekki nóg að safna upplýsingum, þær þurfa að vera aðgengilegar þegar á þarf að halda og gefa okkur réttar upplýsingar  á réttum tíma”. “Við höfum átt í góðu samstarfi við hugbúnaðarfyrirtækið Hug/Ax og hafa sérfræðingar þeirra unnið hörðum höndum ásamt okkar fólki að því að koma kerfinu í gagnið – í raun má segja að innleiðingin hafi tekið ótrúlega stuttan tíma, en við tókum ákvörðun í byrjun desember 2006  um að flýta verkefninu og rafræn skýrsluskil hófust um áramót.

Eftirlitsskyldir aðilar ánægðir með fyrirkomulagið
Jónas segir eftirlitsskylda aðila vera almennt  ánægða með hið nýja fyrirkomulag. ,,Þetta auðveldar þeim til muna skýrsluskil til FME og þeir geta á einum stað fengið gott yfirlit yfir stöðuna á þeirra eigin skýrsluskilum.”  Jónas nefnir sem dæmi að  fyrstu þrjá mánuði ársins hafi rúmlega 52% fyrirtækja á lánamarkaði skilað skýrslum fyrir eindaga, um 20% hafi skilað 15 dögum eftir eindaga, þá hafi nokkrir aðilar, eða um 6%, ekki skilað skýrslum fyrr en  eftir að dagsektum hafi verið hótað.  Þau fyrirtæki sem ekki skila skýrslum á réttum tíma verða beitt dagsektum.  ,,Óreiða og dráttur á reglubundinni skýrslugjöf til FME getur verið fyrsta vísbending um að eitthvað sé í ólagi hjá viðkomandi fyrirtæki – þess vegna er mikilvægt að fylgja slíku fast eftir”.

Jónas segir að FME  muni á næstunni leita eftir frekari viðbrögðum eftirlitsskyldra aðila við þessu nýja skýrsluskilafyrirkomulagi. ,,Við viljum að samskipti FME og eftirlitsskyldra aðila séu sem þjálust og teljum mikilvægt að viðmót þessa nýja kerfis sé einfalt og notendavænt, þess vegna leitum við eftir viðbrögðum þeirra”.   ,,Með því að auðvelda eftirlitsskyldum aðilum að uppfylla þá upplýsingaskyldu sem á þeim hvílir, t.d. með því að gera þeim kleift að skila inn skýrslum og gögnum á einfaldan hátt, aukast líkurnar á því að FME berist  réttar upplýsingar á réttum tíma – en greining á þeim er einmitt  lykilatriði við að tryggja traustan fjármálamarkað og skilvirkt eftirlit”, segir Jónas.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica