Fréttir


FME: Skýrsla um uppgjör í erlendri mynt

27.2.2007

,,Staða Íslands er ólík stöðu nágrannalandanna að því leyti að erlend starfsemi íslenskra banka vegur mun þyngra en erlend starfsemi banka í nágrannaríkjunum. Þar af leiðandi hafa sveiflur á gengi íslensku krónunnar meiri áhrif á eiginfjárhlutföll og arðsemi fjármálafyrirtækjanna”.  Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Fjármálaeftirlitsins um reikningsskil í erlendri mynt.
 
Jónas Fr. Jónsson, forstjóri FME segir að í kjölfar heimildar Straums-Burðarás hf. til að breyta uppgjörsmynt í reikningsskilum úr íslenskum krónum í evrur og umræðu um möguleg áform annarra banka að gera slíkt hið sama hafi FME ákveðið að skoða hvaða áhrif slíkar breytingar kynnu að hafa á íslenskan fjármálamarkað frá sjónarhorni FME.  ,,Skýrslan er fyrst og fremst  faglegt innlegg í umræðuna þar sem leitast er við að setja fram upplýsingar varðandi þetta umfangsmikla mál”.

Jónas segir meginspurningarnar snúa að þeim áhrifum sem erlend reikningsmynt  kann að hafa  eiginfjárstöðu, arðsemi og áhættustjórnun fjármálafyrirtækjanna, sem og gjaldeyrisjöfnuð og gengi íslensku krónunar. ,,Hér er um stórt mál að ræða, bæði rekstrarlegt og efnahagspólitískt. Það er því afar brýnt að farið verði yfir alla helstu þætti þess á heildstæðan hátt”, segir Jónas.

Skýrsluna má nálgast hér.


Helstu niðurstöður úr skýrslu FME:

Bankar og  önnur félög hér á landi sem hyggjast semja ársreikninga sína í erlendri mynt þurfa til þess sérstaka heimild ársreikningaskrár.  Ákvæði íslenskra laga um þetta efni voru upphaflega sett árið 2002 og áttu sér fyrirmynd í alþjóða reikningsskilastöðlum (IFRS). Frá ársbyrjun 2005 voru ákvæði alþjóðlegra reikningsskilastaðla innleidd hér á landi.  Í flestum nágrannalandanna gilda ákvæði IFRS staðla um samningu ársreikninga fyrir samstæður félaga.  Í Bretlandi, Svíþjóð og Danmörku eru reikningsskil í evrum auk heimamyntar þó heimil í öllum tilvikum.

Staða Íslands er ólík nágrannalandanna að því að leyti að erlend starfsemi íslenskra banka vegur mun þyngra en erlend starfsemi banka í nágrannaríkjunum. Vægi erlendrar starfsemi eða tekna banka í nágrannalöndunum hefur ekki verið með þeim hætti að reynt hafi á þau viðmið sem tilgreind eru í IFRS stöðlum varðandi reikningsskil í erlendri mynt.

Álitamál er hvort viðskiptabankarnir uppfylli skilyrði ársreikningalaga um uppgjörsmynt með hliðsjón af umfangi erlendrar starfsemi þeirra. Fjármálaeftirlitið tekur ekki afstöðu til þess hvort svo sé, enda er slíkt mat falið öðrum stjórnvöldum. Hins vegar er vægi erlendrar starfsemi og erlendra liða í efnahag bankanna með þeim hætti að sveiflur á gengi íslensku krónunnar og uppgjörsmynt hefur áhrif á eiginfjárstöðu og arðsemi eigin fjár.

Misræmi í vægi erlendra liða í eiginfjárgrunni annars vegar og áhættugrunni hins vegar hefur í för með sér sveiflur í eiginfjárhlutfalli við breytingar á gengi krónunnar. Fyrir banka sem færir reikningsskil í íslenskum krónum getur verið erfitt að ná samræmi í vægi erlendra liða nema með því að byggja upp jákvæða gjaldeyrisstöðu. Opin gjaldeyrisstaða hefur aftur á móti áhrif á afkomuna við gengisbreytingar. Út frá sjónarhóli einstaks banka með misræmi í vægi erlendra liða samkvæmt framansögðu getur umbreyting reikningsskila yfir í erlenda mynt verið rökrétt með hliðsjón af áhættustýringu.

Útreikningar Fjármálaeftirlitsins miðað við stöðuna í árslok 2006 gefa til kynna að til að ná jafnvægi í vægi erlendra liða í eiginfjárgrunni annars vegar og áhættugrunni hins vegar hefðu þrír stærstu viðskiptabankarnir þurft að auka jákvæða gjaldeyrisstöðu sína um 230 ma. króna Frá áramótum hefur gjaldeyrisstaða þeirra aukist nokkuð og þörfin fyrir frekari kaup minnkað.

Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með að fjármálafyrirtæki fari eftir hinum ýmsu lögum og reglum sem um starfsemina gilda. Eftirfylgni í því sambandi er m.a. framkvæmd með reglulegri skýrslusöfnun. Við umbreytingu reikningsskila fjármálafyrirtækis yfir í erlenda mynt yrði nauðsynlegt að skýrsluskil til eftirlitsins yrðu áfram í íslenskum krónum til að tryggja samanburð við talnaefni frá öðrum fjármálafyrirtækjum. Ekki verður séð að umbreyting reikningsskila einstakra fjármálafyrirtækja yfir í erlenda mynt hafi veruleg vandkvæði í för með sér hvað varðar eftirlitshlutverk Fjármálaeftirlitsins.

Sé litið til gengis krónunnar, þá eru fjölmargir þættir sem áhrif hafa.  Ef allir bankarnir myndu breyta reikningsskilum sínum yfir í erlenda mynt (eða byggja upp “kjörstöðu” með jákvæðum gjaldeyrisjöfnuði) á sama tíma og umbreytingaskeiðið stæði stutt yfir myndi slíkt eflaust hafa skammtímaáhrif til lækkunar á gengi krónunnar.  Hversu mikið og hversu lengi færi eftir öðrum aðstæðum. Ef gjaldeyrisuppbyggingin ætti sér stað yfir nokkurt tímabil og bankarnir færu ekki samtímis þessa leið má vænta þess, að gefnu því að aðrir þættir væru stöðugir, að áhrifin á gengi krónunnar yrðu ekki veruleg.
 
Að síðustu er tekið fram að umfjöllunarefnið er flókið og margir óvissuþættir, auk þess sem efnahagsleg og pólitísk sjónarmið skipta máli.  Í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur um reikningsskil fjármálafyrirtækja í erlendri mynt, áhuga skráðra fyrirtækja á að skrá hlutafé í erlendri mynt og hugsanlegri skráningu og viðskiptum með hlutabréf innlendra félaga í erlendri mynt er það álit Fjármálaeftirlitsins að æskilegt væri að skoða viðeigandi löggjöf á heildstæðan hátt.  Í slíkri skoðun mætti meta þjóðhagsleg áhrif ofangreinds og taka afstöðu til mögulegra lagabreytinga með tilliti til þeirrar breytinga sem orðið hafa á íslensku viðskiptalífi á síðustu 5-10 árum.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica