Fréttir


Fjármálaeftirlitið vekur athygli á löggjöf um birtingu opinberrar fjárfestingarráðgjafar

1.10.2014

Að gefnu tilefni vekur Fjármálaeftirlitið athygli á gildandi löggjöf um opinbera fjárfestingarráðgjöf. Í 12. tölulið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti (vvl.) er að finna skilgreiningu á opinberri fjárfestingarráðgjöf:

Greining eða samantekt upplýsinga sem felur í sér ráðleggingu um kaup eða sölu á fjármálagerningum eða leggur til fjárfestingarstefnu, með beinum eða óbeinum hætti, sem varðar einn eða fleiri fjármálagerninga eða útgefendur þeirra og ætluð er almenningi eða er líkleg til að verða aðgengileg almenningi, svo sem ef henni er dreift til stórs hóps manna.

Í 25. gr. vvl. kemur fram að hver sá sem setur fram eða birtir opinbera fjárfestingarráðgjöf skuli gæta þess að slíkar upplýsingar séu settar fram af sanngirni, geta um hagsmuni og hagsmunaárekstra og uppfylla að öðru leyti skilyrði reglna nr. 1013/2007.

Í 2. gr. reglnanna kemur fram skilgreining á hugtakinu greining. Samkvæmt ákvæðinu er það skýrsla, grein eða aðrar upplýsingar sem fela í sér og gefa (beint eða óbeint) til kynna fjárfestingarráðleggingu varðandi tiltekna fjármálagerninga eða útgefendur þeirra (fjárfestingarráðgjöf), sem unnin er af sjálfstæðum greinanda, fjármálafyrirtæki eða öðrum sem hefur að meginstarfi að vinna að fjárfestingarráðgjöf eða öðrum sem mælir með beinum hætti með tiltekinni fjárfestingarákvörðun varðandi fjármálagerning.

Að mati Fjármálaeftirlitsins getur álit á núverandi eða væntanlegu verðmæti eða verði eins eða fleiri fjármálagerninga eða útgefendum fjármálagerninga fallið undir skilgreiningu á ráðleggingu, sem og rannsóknarniðurstöður eða aðrar upplýsingar, sem með beinum eða óbeinum hætti fela í sér ráðleggingar eða tillögu um fjárfestingaráætlun, sem ætlunin er að fari um dreifileiðir eða ætluð er almenningi. Ennfremur getur það falið í sér óbeina ráðleggingu eða tillögu um fjárfestingaráætlun að vísa til gengis fjármálagerninga.

Við mat á því hvort útgefið efni telst falla undir skilgreiningu á opinberri fjárfestingarráðgjöf skiptir efnislegt inntak höfuðmáli, ekki hvaða titil það ber. Þá er ekki hægt að undanskilja útgefið efni frá reglunum með því að setja fyrirvara um að það skuli ekki teljast opinber fjárfestingarráðgjöf ef það inniheldur í reynd slíka ráðgjöf.

Opinber fjárfestingarráðgjöf, sem gefin er út af öðrum en þeim sem hafa gerð opinberrar fjárfestingarráðgjafar að aðalstarfi, þarf að uppfylla skilyrði 1. þáttar reglna nr. 1013/2007 (reglurnar). Snúa þau að auðkenni greinanda, framsetningu og tilgreiningu hagsmuna og hagsmunaárekstra. Aðilar sem hafa gerð opinberrar fjárfestingarráðgjafar að aðalstarfi þurfa að auki að uppfylla skilyrði sem koma fram í 2. þætti reglnanna.

Uppfylli opinber fjárfestingarráðgjöf ekki kröfur sem gerðar eru í fyrrgreindum reglum og um gróft eða ítrekað brot er að ræða, getur það varðað útgefanda efnisins stjórnvaldssektum sbr. 2. mgr. 141. gr. vvl. Sektir geta numið frá 50 þús. kr. til 50 millj. kr. á lögaðila.

 

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica