Fréttir


AGS gerir úttekt á fylgni Fjármáleftirlitsins við kjarnareglur um skilvirkt bankaeftirlit (BCP)

3.9.2014

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefur birt á heimasíðu sinni niðurstöður úttektar sjóðsins, sem fram fór á fyrri hluta þessa árs, á fylgni (e. compliance) Fjármálaeftirlitsins við 29 kjarnareglur um skilvirkt bankaeftirlit (e. Basel Core Principle on Effective Banking Supervision). Niðurstaða AGS felur í sér að öllum lágmarksviðmiðum var mætt (e. compliant) varðandi sjö þeirra og níu voru uppfylltar að verulegu leyti (e. largely compliant). Þrettán voru ekki uppfylltar að verulegu leyti (e. materially non-compliant).

Ábendingar um úrbætur sem fram koma í úttekt AGS lúta annars vegar að þáttum í starfi Fjármálaeftirlitsins og hins vegar að þáttum sem varða innviði í íslensku stjórnkerfi svo sem valdheimildum Fjármálaeftirlitsins samkvæmt lögum. Ábendingarnar má flokka í eftirfarandi fimm megin þætti:

  • Úrbætur sem krefjast lagabreytinga
  • Útgáfa reglna/leiðbeinandi tilmæla sem beina þarf að eftirlitsskyldum aðilum varðandi ýmsa áhættuþætti í starfsemi þeirra
  • Að lokið verði innleiðingu áhættumiðaðs eftirlits
  • Að Fjármálaeftirlitið setji sér ítarlegri innri verklagsreglur varðandi viðmið við eftirlit með einstökum áhættuþáttum í starfsemi eftirlitsskyldra aðila
  • Að Fjármálaeftirlitið þrói áfram endurmenntunar- og mannauðsstefnu með það markmið að stuðla að því að starfsmenn þróist í starfi og stofnuninni haldist á starfsfólki

Úttektin byggðist á endurskoðuðum kjarnareglum sem gefnar voru út árið 2012 af Baselnefnd um bankaeftirlit (e. Basel Committee on Banking Supervision), þar sem meðal annars er lögð aukin áhersla á skipulegt mat áhættuþátta og bætt eftirlit með rekstri fjármálafyrirtækja í samræmi við veikleika sem komu fram í hruni á fjármálamörkuðum á árunum 2007 og 2008.

Fjármálaeftirlitið vinnur að uppfærðri aðgerðaáætlun um úrbætur í samræmi við niðurstöður úttektarinnar, og fyrri úttekta á eldri kjarnareglum, og er áformað að úrbótum ljúki árið 2016.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica