Fréttir


Frétt fjarlægð af vef

18.3.2014

Fjármálaeftirlitinu barst skömmu fyrir hádegi í gær, 17. mars, beiðni frá Ingólfi Guðmundssyni um að frétt á vef Fjármálaeftirlitsins frá 12. apríl 2011 sem bar yfirskriftina „Athugasemd við frétt Fréttablaðsins“ yrði fjarlægð af vef Fjármálaeftirlitsins. Ingólfur fór einnig fram á að Fjármálaeftirlitið birti afsökunarbeiðni vegna meiðandi umfjöllunar sem þar væri að finna.

Tilgangurinn með birtingu umræddrar fréttar á sínum tíma var að bregðast við frétt Fréttablaðsins hinn 12. apríl 2011 undir yfirskriftinni „Umboðsmaður Alþingis gagnrýnir Fjármálaeftirlitið: Lífeyrissjóðsstjóri átti rétt á að fá gögn“ og samhljóða frétt á Vísi.is. Þar sagði að synjun Fjármálaeftirlitsins um afhendingu umbeðinna gagna til Ingólfs Guðmundssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verkfræðinga, skorti lagastoð að mati Umboðsmanns Alþingis. Fjármálaeftirlitið vildi með birtingu fréttar sinnar koma því skýrt á framfæri að ekki væri rétt að segja að álit Umboðsmanns Alþingis hefði  verið að synjunina skorti lagastoð og að Fjármálaeftirlitinu bæri að afhenda Ingólfi umbeðin gögn. Hið rétta væri að Umboðsmaður Alþingis hefði í áliti sínu gert athugasemd við á hvaða grunni Fjármálaeftirlitið synjaði Ingólfi um gögnin og hefði hann raunar bent á lagagreinar sem ættu betur við í umræddu tilviki.

Fjármálaeftirlitið ákvað strax í gær að verða við þeim tilmælum Ingólfs að fjarlægja umrædda frétt af vef sínum. Fjármálaeftirlitið vill einnig taka fram að ef Ingólfur leggur þann skilning í fréttina að í henni hafi falist aðdróttanir eða ærumeiðingar í hans garð harmar Fjármálaeftirlitið það og ítrekar að slíkt var ekki ætlunin með umræddri frétt heldur að leiðrétta missögn.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica