Fréttir


Fjármálaeftirlitið undirbýr nýja útgáfu af skýrsluskilakerfi

13.2.2014

Fjármálaeftirlitið undirbýr nú nýja útgáfu af skýrsluskilakerfi sínu, útgáfu 2.0. Næstu skref eru að hefja prófanir og verður ný útgáfa sett í prófunarumhverfið þann  17. febrúar næstkomandi.

Breytingar sem ný útgáfa hefur í för með sér eru að horfið verður frá möppufyrirkomulagi í viðmóti. Í staðinn er birtur einfaldur listi með öllum skýrslum sem viðkomandi eftirlitsskyldur aðili á að skila. Sjónarhornin Skýrslusniðmát, Skýrslur í vinnslu, Skýrsluskil og Skilayfirlit munu halda sér. Eftirlitsskyldir aðilar munu geta búið til aðgangshópa  og þannig veitt einstökum starfsmönnum aðgang að mismunandi skýrslum. Að öðru leyti virkar kerfið eins og áður. Engar breytingar verða gerðar á vefþjónustu þannig að breytingarnar eiga ekki að hafa áhrif á skýrsluskil sem fara þá leið.

Á meðan á prófunum stendur verður aðeins hægt að senda inn skýrslur í prófunarumhverfi FME  til að framkvæma prófanir á móti útgáfu 2.0 af skýrsluskilakerfinu. Jafnframt verða eingöngu gerðar lágmarksbreytingar á skýrslum í núverandi kerfi á meðan á prófunum á nýrri útgáfu stendur.

Áætlað er að útgáfa 2.0 taki við af núverandi útgáfu skýrsluskilakerfisins í maí eða júní 2014.

FME vonast til að eiga góða samvinnu við eftirlitsskylda aðila á prófunartímabilinu og að þessar breytingar skili betra skýrsluskilakerfi fyrir alla aðila.
Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica