Fréttir


Svar við opnu bréfi til Fjármálaeftirlitsins

29.8.2013

Þann 22. ágúst sl. birtist í Morgunblaðinu opið bréf til Fjármálaeftirlitsins varðandi viðskiptahætti Lýsingar hf. og var þar fjölda spurninga beint til eftirlitsins.
 
Fjármálaeftirlitinu er ekki heimilt að tjá sig sérstaklega um mál einstakra eftirlitsskyldra aðila á opinberum vettvangi og getur því einungis leitast við að upplýsa með almennum hætti um eftirlit með viðskiptaháttum með hliðsjón af þeim spurningum sem beint var til eftirlitsins.

Tilefni greinar fyrirspyrjanda voru viðbrögð Lýsingar hf. við dómi Hæstaréttar í máli nr. 672/2012, er varðaði verðtryggingarhluta bílasamnings frá 2006. Þannig gerir fyrirspyrjandi athugasemd við að fjármálafyrirtækið hafi, í stað þess að endurreikna öll sambærileg lán að eigin frumkvæði, óskað eftir því að viðskiptavinir sem telja sig hafa gert óverðtryggðan samning geri kröfu um endurgreiðslu. Þá er spurt hvort slíkt samræmist eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum.

Hvað mat á eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum varðar er Fjármálaeftirlitið, líkt og önnur stjórnvöld, bundið málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins en í því felst að ekki er unnt að staðhæfa um starfshætti einstakra eftirlitsskyldra aðila án undangenginnar málsmeðferðar, þ.e. að gættum andmælarétti o.fl.

Við mat á eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum er m.a. horft til reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 670/2013 um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti fjármálafyrirtækja. Í þeim reglum er lögð áhersla á ríka upplýsingaskyldu af hálfu fjármálafyrirtækja, þ. á m. varðandi nauðsynlegar upplýsingar er varða viðskiptasambandið.

Þess má jafnframt geta að Neytendastofa sem hefur eftirlit á grundvelli laga um neytendalán  hefur tekið mál þetta til skoðunar og hefur af því tilefni bæði verið í samskiptum við Fjármálaeftirlitið og Umboðsmann skuldara. Í kjölfar þeirra samskipta gaf Neytendastofa út fréttatilkynningu um málið þann 30. júlí 2013.

Fyrirspyrjandi  spyr hvort ábending Lýsingar um að verðtrygging hafi komið fram á greiðsluseðli skapi Lýsingu hf. rétt umfram 1. málsl. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um þetta má almennt segja að samkvæmt grundvallarreglu samningaréttar má gera ráð fyrir að eingöngu þeir þættir sem aðilar hafa samið um og skýrt koma fram í texta samnings aðila séu skuldbindandi.  Einhliða breytingar annars aðila eru því almennt ekki skuldbindandi fyrir gagnaðila.

Almennt geta fyrning kröfu og sjónarmið um tómlæti leitt til þess að aðilar sem telja sig eiga kröfu glati henni. Skýrar reglur um fyrningu kröfu eru í lögum nr. 150/2007 en þar kemur fram að almennur fyrningarfrestur kröfu er fjögur ár. Hvað tómlætissjónarmið varðar kemur m.a. til álita hvort skuldari hafi þrátt fyrir áskorun haldið að sér höndum og með því glatað rétti. Hversu langur tími má líða áður en tómlætisáhrifa fer að gæta er mat hverju sinni sem heyrir undir dómstóla og eftir atvikum úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki.

Eftirlit með viðskiptaháttum er mikilvægur liður í starfsemi Fjármálaeftirlitsins en í því felst m.a. að gætt er hagsmuna neytenda eftir því sem kostur er. Þannig framkvæmir Fjármálaeftirlitið reglulega almennar athuganir á viðskiptaháttum eftirlitsskyldra aðila og veitir neytendum leiðbeiningar í samræmi við 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Svo sem nánar greinir í verklagsreglum Fjármálaeftirlitsins um ábendingar og fyrirspurnir, sem finna má á www.fme.is, hefur Fjármálaeftirlitið þó ekki úrskurðarvald í einstökum ágreiningsmálum eða sker úr um réttindi og skyldur aðila að einkarétti eða ágreiningi um sönnun málsatvika.

Málefni Lýsingar hf., líkt og annarra eftirlitsskyldra aðila, eru undir viðvarandi eftirliti Fjármálaeftirlitsins en í því felst m.a. öflun ýmissa upplýsinga um einstaka og almenna þætti í rekstri viðkomandi fyrirtækis. Þar sem iðulega er um að ræða upplýsingar sem leynt eiga að fara er Fjármálaeftirlitið bundið þagnarskyldu um samskipti við eftirlitsskylda aðila, þ. á m. varðandi hvort eða hvernig einstökum athugunum sé háttað. Hins vegar athugast að samkvæmt 9. gr. a. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi er Fjármálaeftirlitinu heimilt, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, að birta opinberlega niðurstöður athugana.  Gagnsæistilkynningar Fjármálaeftirlitsins má finna á heimasíðu eftirlitsins, www.fme.is.
Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica