Fréttir


Ábendingar frá Fjármálaeftirlitinu varðandi framkvæmd hlutafjárútboða

27.8.2013

Fjármálaeftirlitið vekur sérstaka athygli á eftirfarandi atriðum vegna þátttöku fjárfesta í útboðum og ábyrgðar útgefenda vegna birtinga upplýsinga um niðurstöður útboða.
 
Fjárfestum er bent á að áskriftir þeirra eru bindandi og getur útgefandi krafist fullra efnda á þeim skuldbindingum sem í áskriftinni eru fólgnar. Hyggi fjárfestar á þátttöku í hlutafjárútboðum telur Fjármálaeftirlitið mikilvægt að þeir kynni sér það regluverk sem gildir um hlutafjárútboð en um útboð og töku fjármálagerninga til viðskipta á skipulögðum verðbréfamarkaði gilda lög um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007. Fjármálaeftirlitið vill árétta að viss hegðun fjárfesta við gerð áskrifta og tilboða gæti falið í sér markaðsmisnotkun í skilningi 117. gr. laganna, sbr. tilkynning sem Fjármálaeftirlitið birti á heimasíðu sinni þann 14. maí síðastliðinn.
 
Útgefendur skulu gæta þess að birta ekki upplýsingar um niðurstöður útboða þannig að þær endurspegli eftirspurn með röngum eða misvísandi hætti. Er það mat Fjármálaeftirlitsins að þær áskriftir sem ekki falla að skilmálum útboðsins og eru felldar niður eða dæmdar ógildar af einhverjum ástæðum séu ekki til þess fallnar að endurspegla eftirspurn með réttum hætti. Fjármálaeftirlitið telur að birting slíkra upplýsinga gæti brotið gegn ákvæðum 3. liðar 1. mgr. 117. gr. sömu laga.
Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica